Í pistli Egils Helgasonar, í framhaldi af þætti hans Kiljunni 17. október, birtir hann kvæðið Alsnjóa, eftir Jónas Hallgrímsson og segir:
„Í Kiljunni í kvöld ræddum við Matthías Johannessen meðal annars um kvæðið Alsnjóa eftir Jónas Hallgrímsson. Þetta er eitt magnaðasta kvæði þjóðskáldsins og um leið það dularfyllsta:
Eilífur snjór í augu mín
út og suður og vestur skín,
samur og samur inn og austur,
einstaklingur! vertu nú hraustur.
Dauðinn er hreinn og hvítur er snjór,
hjartavörðurinn gengur rór
og stendur sig á blæju breiðri,
býr þar nú undir jörð í heiðri.
Víst er þér, móðir! annt um oss;
aumingja jörð með þungan kross
ber sig það allt í ljósi lita
lífið og dauðann, kulda’ og hita.
Kvæði Jónasar eru flest tiltölulega einföld og auðskilin. En Alsnjóa er það ekki. Hver er til dæmis hjartavörðurinn?“ Tilvitnun lýkur.
Mér varð á að setja eftirfarandi athugasemd við pistilinn:
„Hjartavörðurinn? Ljóðmælandinn sjálfur? Hugurinn kallar fram spekiorð frá Orðskviðunum: ,,Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins.” Með öðrum orðum, sérhver einstaklingur er vörður síns hjarta. Hjartavörður.“
Matthías Johannessen er jafnan djarfur þegar kemur að túlkunum á hinum ýmsu bókmenntum og það var hann einnig í þessum þætti Egils og gaf sem skýringu, á síðustu línu í ljóði Jónasar, að þar hefði skáldið verið með hugann við orð í Opinberunarbók Jóhannesar þar sem segir: „Ég þekki verkin þín, að þú ert hvorki kaldur né heitur. Betur að þú værir kaldur eða heitur. En af því að þú ert hvorki heitur né kaldur, mun ég skyrpa þér út af munni mínum.“ (Op. 3:15-16).
Það er mér nokkurt ánægjuefni, á útgáfudegi nýrrar Biblíuþýðingar á íslensku, að vekja athygli á samsvörun við spekiorð ritningana í ljóði Jónasar Hallgrímssonar. Finn fyrir glaðvær í hjarta mínu þar sem ég sit og fletti nýrri Biblíu sem ég keypti fyrir stundu. Ég fæ ekki betur séð en bókin sé yndisleg í hvívetna, mjúk og þægileg og fer afar vel í hendi.
Það mun svo koma í ljós með tímanum hvernig sambúðin með henni gengur við nánari kynni. Þar kemur til nýtt málfar og niðurstöður þýðinganefndar um breytingar. En vitað er að ekki eru allir á eitt sáttir.
Hvað um það, ég segi, þar sem ég sit og fer um hana höndum:
Hún ilmar eins og lilja í dölunum.