Það hefur vakið athygli mína hvað fáir vitar hafa tjáð sig um Doris Lessing og Nóbelsverðlaunin sem hún hlaut í liðinni viku. Kannski hefur verið svona gaman að velta sér upp úr stjórnmálum borgarinnar að allt annað hafi gleymst. Eða finnst íslenskum vitum kannski svona lítið til hennar koma? Heyrði þau útvöldu í þætti Egils, Kiljunni, aldrei nefna nafnið hennar sem möguleika.
Maður er vanur því að blásið sé í lúðra þegar rithöfundar fá þessi frægu verðlaun. Þá gerist það oftast að margt er um þá skrifað og fákænir læra eitt og annað um viðkomandi af þeim skrifum, sem er einkar nærandi og þægilegt fyrir verkamenn sem urðu að verja lengstum tíma ævi sinnar við haka og skóflu til þess að eiga fyrir mat.
Það læðist að manni sú hugsun að vitarnir flokki skrif hennar undir „kerlingabækur“ eins og gert var við bækur Guðrúnar frá Lundi og ýmsir karlar létu eftir sér að tala niður. Það er ekki sérlega fræðimannslegt að gera rithöfundum ekki einhver skil í fjölmiðlum þótt fólk sé ekki endilega hrifið af þeim.
Mér skilst að Doris þessi Lessing hafi skrifað stöðugt í hálfa öld, eða frá því að fyrsta bók hennar, The Grass is Singing, kom út 1950, bók sem hlaut einstakar viðtökur í Bretlandi, í Ameríku og tíu Evrópulöndum. Síðar varð hún kunn um allan heim og ekki síst fyrir smásögur, en fyrir þær hlaut hún Somerset Maugham verðlaunin.
Í bókahillum Ástu minnar sé ég sjö bækur eftir Doris Lessing. Stend mig að því að hafa aðeins byrjað á tveim og ekki lokið þeim. Líklega er ég haldinn þessu heilkenni sem flokkar konubækur í óæðri flokka. Er samt byrjaður á smásögu í The Room Nineteen sem heitir The Habit of Loving.
Bíð eftir blaðagreinum um konuna og bækur hennar.
Já, hún er ekki alveg af þessum heimi, þessi kona. Maður hreifst auðvitað af henni fyrir löngu, en mikið var að beljan bar í fjósinu í Ósló.
Góðir punktar hjá þér Óli. En það var kostulegt að hún hélt að það væri verið að taka upp sápuóperu fyrir utan heima hjá henni þegar hún kom úr kjörbúðinni og mætti pressunni þar.
kv jgó