Fyrir fimm árum, þá var húsið nýtt og yst í byggðinni. Móar og ósnert jörð eins og augað eygði af svölunum. Nú hafa þeir byggt eins og augað dregur. Það þýðir að útsýnið er harla ólíkt því sem það var þegar við fluttum inn og margt að sjá af svölunum á sjöundu hæð.
Í gærkvöldi varð mér litið út og fór út á svalirnar. Það var falleg kvöldmynd sem blasti við í austurátt. Set hérna tvær þeirra sem myndavélin gómaði. Smellið á myndirnar.
Tunglið er alltaf eins þótt mannheimar breytist.
Það var svo í morgun, eins og alla aðra morgna, að ég leit út til að skoða veðrið og spá í daginn og sá þá nokkra menn vera að undirbúa að taka niður radíómastur á Rjúpnahæð. Ég fylgdist með.
Búið var að koma fyrir festingum úr kranabómunni í toppinn á mastrinu.
Maður klifrar upp í mastrið til að skrúfa það í sundur um miðjuna.
Loks er það híft upp og látið síga til jarðar.
Það ber ýmislegt fyrir augun af svölunum á sjöundu hæð.