Þetta varð innihelgi. Hún átti samt ekki að verða það. En norðan þræsingurinn var stífur. Tólf til sextán norðaustan. Hitinn plús fimm. Þá er gott að hafa góðar bækur. Ásta las Jón Kalman, sjálfur er ég svo heppin að eiga The Norton Anthology of Amerikan Literature. Hún er gersemi. Lýkur aldrei. Enda nítján hundruð fimmtíu og fimm blaðsíður.
Við hófum gærdaginn þó með því að fara í bíltúr um nágrennið. Vildum hitta haustið og heilsa því. Það getur verið gott inni í bíl þótt kuldalegt sé úti. Ég tók nokkur sýnishorn af litadýrð í sköpun Guðs með mér og læt fylgja pistlinum ef einhver skyldi hafa ánægju af. Smellið á myndirnar.
Stundum hef ég verið heppinn með bækur. Eitt skipti keypti ég allar bækur af nemanda í Háskóla Íslands sem byrjaði í enskum bókmenntum en skipti yfir í guðfræði á öðru ári. Í annað skipti keypti ég allar bækur af nemenda í Háskóla Íslands sem byrjaði í sálarfræði en skipti yfir í hjúkrunarfræði eftir fyrsta árið. Þetta voru góð kaup og bækurnar hafa fylgt mér æ síðan.
Þess vegna á ég ýmsar anþólógýur um eitt og annað. Sumir höfundar sem sýndir eru í þessum bókum verða innilegir og persónulegir vinir manns. Þá á ég við að margt sem þeir hafa sagt, hafa samið, þið vitið, í innri hólfum tilverunnar, hittir einskonar samsvörun í innri hólfum lesandans. Þið þekkið þetta. Maður staldrar við setningar og lætur þær líða um skilningarvitin og les þær svo aftur. Líkt og maður gerir við afburða góðan mat. Lætur hann líða um bragðkirtlana, tunguna og góminn, veltir honum til, andar inn mjúklega og kyngir svo hægt. Fær sér svo annan bita.
Já. Við vorum í Litlatré. Eftir hádegi í gær klæddi ég mig vel og fór út á pall og sat þar um hríð og horfði á norðan vindinn næða um gul stráin, gul laufin, gula jörðina.
Og ljóðbrot eftir mína kæru Emily Dickinson kom í hugann:
„The wind begun to knead the Grass-
As Women do a Dough-
He flung a Hand full at the Plain-
A Hand full at the Sky-
The Leaves unhooked themselves from Trees-
And started all abroud-
[…] “
Við Ásta höfum lagt okkur fram um að gefa flestum svæðum á þessari sjöþúsundfermetra lóð nafn, og persónugera þau og tengjast þeim nánar. Þarna er til dæmis Tangaskógur, þar gróðursettum við fyrst, þá er einnig Barnaskógur, en afkvæmin gáfu okkur fyrir nokkrum hríslum sem mynda hann. Þá er þarna Melurinn og Móinn og Kamburinn og Rásin, Lerkiskógurinn og Elriskógurinn og Barðið og Útverðirnir.
Þetta er svo skemmtilegt og persónulegt og fullt af lífsnautn. Í gær kom Steini í Hátúni með gröfuna sína og mótaði stóra moldarhlassið sem við fengum í fyrra og kölluðum Herðubreið vegna lögunarinnar, og breytti því eftir óskum Ástu og nú heitir það Mönin. Og Ásta hefur áætlun um að setja ótal tegundir í Mönina næsta vor. Hún var svo kát og hló við.
Fyrstu helgina í október áætlum við að gróðursetja 40 birkiplöntur sem við pöntuðum í vor. Haustgróðursetning hefur gefist okkur svo vel. Vonandi verður ekki eins hvasst þá og það var í gær. Þó höfum við reynslu af því að gróðursetja í tíu vindstigum, eins og það hét þá. Það var strembið. Stóðum varla í verstu hviðunum.