Andlit hans tjáir angist. Djúpa og örvæntingarfulla. Ósjálfrátt hljóðnar maður. Ósjálfrátt reynir maður að sjá inn fyrir andlitsdrættina. Reynir að gera sér í hugarlund hvort Stefán er meðvitaður um fjötrana, fötlunina, sem halda honum föstum. Í heljargreipum. Hvort gráturinn er skerandi hróp á hjálp til að losna úr fjötrunum. Eða ósjálfráður vöðvasamdráttur. Hvað getur einn fávís áhorfandi vitað um rætur angistar Stefáns?
Við fórum í gær eftir vinnu vestur í Þjóðminjasafn til að sjá ljósmyndasýninguna Undrabörn. Sýningin kallar fram margvísleg viðbrögð áhorfandans. Vekur spurningar, afhjúpar vanmátt, kallar á samúð og samlíðan. Þetta er mögnuð og upplýsandi sýning. Þarna er mynd af Eyjólfi sem felur sig. Söndru sem faðmar vin sinn Kristján. Hallgrími í snjónum og Írisi sem skellti upp úr alltaf þegar hún sá myndavélina.
Svo eftir einn hring eða tvo um salinn sest maður á leðurbekk á miðju gólfi og beinir sjónum að fólkinu sem vinnur við að aðstoða hina fjötruðu. Hjálpar þeim að ganga, hjálpar þeim að skríða, hjálpar þeim að synda, hjálpar þeim að þjálfa vöðva, hjálpar þeim að borða, hjálpar þeim að hægja sér og gera frumþarfir sínar aðrar. Hjálpar þeim að lifa eins og kostur er.
Og hjarta manns fyllist af aðdáun á starfsfólki stofnananna sem annast þá fjötruðu, og hjarta manns slær með foreldrunum sem alla daga og allar nætur eru til staðar fyrir ástvini sína og reyna að létta þeim lífið. Alla daga og allar nætur, allar vikur og alla mánuði og öll ár. Og hversu léttvæg sem þau eru, orð einhvers bloggara úti í bæ, þá enda ég þennan pistil og segi: Megi Jesús Kristur anda mildi sinni og blíðu inn í sálir ykkar og hjörtu og létta ykkur dagleg viðfangsefni.