Mér sýnist að ekki verði hjá því komist að rýmka í bókahillunum. Hvernig er farið að því? Auðveldasta aðferðin er að tína bækur í innkaupapoka og henda þeim. Ég sagði það. Henda þeim. Henda bókunum. Fara með þær, setja þær í gám og skilja þær eftir þar. Ég hef heyrt af fólki sem setti kettlinga í poka og setti pokann í gám. Ók svo heim og losnaði ekki við veinin í kettlingunum úr hausnum á sér í ómældan tíma.
Það er ekki víst að ég losni við vein. Ekki það að bækurnar veini, nei, en alveg eins víst að ég sjálfur veini, sá hluti sálarinnar sem ann bókunum, ekki sá hluti sem vill vera skynsamur, harður af sér og ákveðinn. Það bendir manni á að „Hver maður hefur mörg kerfi.“ eins og Sigurður Norðdal orðar það í fyrirlestrum sínum Einlyndi og marglyndi.
Það er mörgum stöðugt viðfangsefni og örðugt að fást við þessi kerfi. Þó fremur þegar maður hefur verið settur til hliðar á markaði vinnunnar. Að stunda atvinnu, nám eða hvert það viðfangsefni sem stuðlar að aukinni afkomu eða hæfni sem eykur á nytsemi fólks, er oftast fyrirferðarmesta kerfi hvers einstaklings sem einfaldar honum glímuna og hjálpar honum að lifa nokkurn veginn í sátt.
Þegar Bókinni um veginn, eftir meistara Lao-Tze, (ca 604 fyrir Krist) er flett í fjögur hundruð og nítugasta skipti og staldrað við þau spekiorð sem maður hefur undirstrikað með bláu og rauðu í gegnum tíðina, þá rifjast upp eitt af því sem maður reyndar alltaf vissi, að einhversstaðar inni í manni sjálfum er lygn fjörður, höfn, þar sem hægt er að jafna sig í glímunni við kerfastríð sálarinnar.
Þetta reyndi Jesús Kristur einnig, fyrir 2000 árum, að benda fólki á. „Guðsríki er hið innra með yður,“ sagði hann og markmið orðanna var að vísa fólki veginn „heim til sálar sinnar,“ þar sem samræmið býr. Þetta var löngu fyrir daga mótorhjólanna.
En í hvíldinni koma fljótlega til manns orð annars spekings sem sagði að „vissulega liði skipum vel í höfn, en þau væru ekki smíðuð til þess.“ Auðvitað ekki. Og í framhaldi af því hlýtur hver einasta manneskja sem hefur áhuga á einhverju öðru en afþreyingarbókmenntum að ná sér í klút og strjúka rykið af bókum sínum, skiljandi það að góðar bækur eru gersemar hugans, næring og blessun sem eykur fjölhæfni og frjálslyndi og dregur úr þröngsýni.
Var einhver að tala um að farga bókum?