Þegar þrengir að

Þokan lá yfir bænum í morgun. Það sást ekki á milli húsa. Ásta var farin í vinnu. Þokan var dimm og lagðist á svalirnar meira að segja, og svo kom hún í sálina. Það varð dimmt bæði úti og inni. Og þröngt. Hvað er þá til ráða fyrir menn sem eiga hvorki hnakk né hest til að fylgja hvatningu Einars Ben?: „…og hleyptu burt undir loftsins þök.“

Ég tók myndavélina og bílinn og ók út dimmuna. Kveikti á þokuljósunum og sagði við sjálfan mig: „Þér fer ekkert fram. Það tekur enginn myndir í dimmu.“ En hér koma nokkrar. Smellið á þær og skoðið stærri gerðina.

Það sá ekki á milli húsa

Svo ók ég eins og leið liggur niður á höfn. Pabbi labbaði stundum með mig út í vitann og sagði mér að horfa ekki niður í sjóinn. Mig gæti svimað.

Við höfnina

Hinu megin, þar sem varðskipin lágu í gamla daga, hvíldu listiskútur í skjóli.

Skútur í vari

Máfurinn tortryggði mig. Hann flaug af ljósastaurnum og hnitaði hringi yfir hausnum á mér og gargaði einhver býsn.

Tortrygginn fugl

Þarna var fjöldi af felli- og hjólhýsum sem biðu í röð eftir kaupendum. Þau ganga varla út í haust úr þessu. Eru þau ekki vonsvikin á svipin?

Vonsvikin fellihýsi

Skammt frá hitti ég netahrúgu sem var svo sérkennilega falleg á litin….

Netahrúga

…hún hafði greinilega verið í slagtogi við stórgrýti í grennd og þau keppt um hvort væri flottara.

Flott stórgrýti

Handan við bryggjuna var feikilega stór togari í slipp…

Togari í slipp

…og hér sést hvað mennirnir sem vinna við togarann eru smáir við hliðina á honum.

Stórt skip og litlir menn

Einföld malarhrúga getur verið fótogen.

Fótógen malarhrúga

Á heimleiðinni stoppaði ég við Tjörnina. Þar var ekkert sérstak um að vera. Reyndar gekk einn borgarfulltrúi framhjá mér og talaði af miklu afli í farsíma sem var fastur í eyranu á honum.

Við Tjörnina

Nú hafði birt talsvert til. Líka í sálinni. Svona vesen með myndvél hjálpar heilmikið til. Og nú átti ég bara eftir að koma við í Bónusi á Smáratorgi og kaupa nokkra kjúklinga. Ég er nefnilega með kjúklingadellu. Það var þá sem ég sá hjónarósina.

Hjónarós

Mér hafa líka alltaf þótt vinnuvélar flottar. Alveg frá því ég var lítill strákur. Og þegar ég sé þær á förnum vegi verð ég helst að koma við þær og spjalla smávegis. Þær taka mér oftast vel. Þessar hitti ég í Kópavogi.

Þrjár systur

Og þetta verður síðasta myndin í bili. Mér líður miklu betur í sálinni núna. Er þetta ekki fallegur gróður?

Tvennskonar gróður

8 svör við “Þegar þrengir að”

  1. Annars er ég orðin idjót sjálf. Finnst skipamyndirnar gasalega fínar. Sjáiði bara hvað mannverurnar eru smáar við hliðina á tignarlegri skrúfunni. 🙂

  2. Jú elskan. Við treystum á að Grænlendingar sjái þær. 🙂

  3. Takk fyrir falleg orð.
    Maður réttir ósjálfrátt úr bakinu og brosir í kampinn.
    Og Birna, mér væri heiður að því að þú notaðir myndina.
    Svo sannarlega.

  4. Flottur á því. Litirnir yndislegir. Ef ég ætti að velja á milli, held ég að ég veldi stórgrýtið.

  5. Fallegur göngutúr. Er ekki í lagi þó ég fái malarhrúguna lánaða sem skjámynd hjá mér ?

  6. Já þetta eru fallegar myndir, og takk fyrir síðuna og kær kveðja Arnbjörn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.