Óratóría – Ísrael í Egyptalandi

Okkur var boðið í veislu á föstudaginn. Það var frábær veisla. Hún var hvorki í mat né drykk heldur í orðum og hljómum, sungin og leikin. Frábær veisla. Við þekktum orðin vel, höfum lifað með þeim hálfa ævina. Lesið aftur og aftur frásögn af kúgun og ánauð, hlýtt á harmakvein og andvörp þjóðar stíga upp af helgum textum. Hróp til Guðs um miskunn og náð. „Og Guð heyrði andvarpanir þeirra.“

Veislan var í Skálholtsdómkirkju. Þar var, í fyrsta sinn á Íslandi, flutt óratórían Ísrael í Egyptalandi eftir Handel. Hörður Áskelsson var þarna mættur með alþjóðlega barrokk hljómsveit frá Haag, kammerkórinn Schola Cantorum og átta einsöngvara. Það var mikil upplifun að hlusta og sjá þetta frábæra listafólk flytja biblíutexta annarrar Mósebókar við undurfagra tónlist Handels.

Skálholtsstaður

Hljómsveitin, kórinn og sérhver söngvari fluttu þessa óratóríu, orðin og tónlistina, af innlifun og yndisleik og heilluðu tilheyrendur með fagmennsku og list. Kontratenórinn Robin Blaze lyfti manni upp í hærri himna með frábærri rödd sinni, tærri og áreynslulausri. Aðrir einsöngvarar skiluðu sínum hlutverkum einnig glæsilega sem og hljómsveitin og kórinn.

Allt þetta samspil reiddi fram ógleymanlega veislu sem hlustendur munu geyma í hugskoti sínu og minnast með ánægju, orðum helgra ritninga og tónlist Handels.

Llitlatré

Að veislu lokinni ókum við upp í Borgarfjörð um Þingvelli og Uxahryggi, undir miðnætti, og héldum okkar menningarnótt í Litlatré í sérlega blíðu veðri.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.