Þetta var dagurinn sem Ásta hafði ákveðið að mála hurðina að utan og bitana sem bera skyggnið. Það hafði dregist úr hömlu. Hún var komin snemma út og þegar hún hafði málað um hríð þykknaði upp og skömmu síðar tók að rigna. Og það rigndi og rigndi og rigndi. Og rigndi. Dásamlega. Hellirigndi. Ásta stóð þarna og hélt á penslinum í annarri hendi og málningardósinni í hinni. Orðlaus.
Spor eftir tófu
Sá í sjónvarpi nýlega að kona nokkur hafði komið á kosningu á heimasíðu sinni um fegursta íslenska orðið. Í fréttinni voru síðan nefnd dæmi, líklega þau tíu sem flest atkvæði höfðu fengið. Í huga minn komu strax tvö orð sem ekki voru á listanum, að ég tæki eftir þeim, en það eru orðin ástúð og alúð. Ást-úð og al-úð. Ég er hrifinn af þeim. Þau hljóma vel og fela í sér fallega merkingu. Þau fá mitt atkvæði.
Fetað í eigin spor
Við erum komin í frí, hjónin, og verðum á okkar uppáhaldsslóðum uppi í Borgarfirði næstu vikur. Þar eiga spor okkar meira en fimmtíu ára sögu. Við ætlum að ganga í þau. Eigin spor. Og spjalla og rifja upp. Svo setjumst við á þúfu og annað okkar segir: „Manstu eftir laginu hans Fúsa um dálítinn svertingjakofa,“ og hitt svarar: „Já, og Úti við svalan sæinn,“ og við þvöðrum og rifjum upp og hlæjum og látum hugann hvarfla til baka. Nostalgía.
Svar til Birnu bloggvinkonu
Í framhaldi af athugasemd við síðasta pistil.
Sæl vertu kæra Birna. Ákaflega er ég glaður og þakklátur fyrir þitt örláta tilboð, – sem þú sendir í athugasemd við síðasta pistil minn, – um bækur að láni í sumarleyfinu. Það yljar mér verulega um hjartaræturnar. En, í trúnaði sagt, þá er ég svo meingallaður í sambandi við bækur, ekki eins og það séu einu meingallar mínir, sei, sei, nei, nóg er af þeim, að ég get eiginlega alls ekki lesið bækur sem ég á ekki sjálfur. Þetta byrjaði í mér um fermingu.
Þel getur snúist við atorð eitt
Oft eru það litlu hversdagslegu atriðin sem móta þel dagsins. Hlakkandi til fimm vikna sumarleyfis sem hefst um komandi helgi, en það er auðvitað eiginkonan sem fær sumarleyfi en ekki ég, því ég var settur af fyrir nokkrum árum sem veldur því að þegar hún fær sumarleyfi þá fæ ég sumarleyfi með henni og hlakka til með henni og fer með henni og verð með henni, – og get ekki annað.