Var á útleið úr Nettó í Mjódd. Hafði póstlagt mannakorn til frænku minnar í Texas og keypt ýsuflak í leiðinni. Skoðaði svo nýju bók Þorsteins Þorsteinssonar um Sigfús Daðason í Eymundson. Hún kostar 2990. Ég átti ekki fyrir henni. En kominn út á planið utan við verslanakjarnann, þetta var um hádegisbil, stansar bifreið við tærnar á mér og útlendur maður á miðjum aldrei skrúfar niður rúðuna og spyr gleiðbrosandi: „Do you speak english.“
„Just a little bit,“ svaraði ég. „Me to,“ sagði hann, „just a little bit.“ Og nú hófst löng skýringaromsa. „I am from Roma, you know Roma, Roma in Italy?“ Hann lét dæluna ganga og sagði meðal annars að hann væri sölumaður frá Róm og væri búinn að selja flott leðurföt í fatabúðir og það hefði gengið vel. Hann væri frá Róma og væri með fín fatamerki, fínar leðurvörur frá Róma og, „viltu sjá?“
Hann hélt áfram: „Nú á ég flug heim til Róma á morgun og á fáein eintök óseld, þau eru á fremur stóran mann, flottan mann, ég sel þau á hálfvirði eða minna, það eru mjög góð kaup. Mér sýnist þau geti passað vel á þig, myndarlegan manninn.“ Nú teygði hann sig eftir fötum og vildi sýna mér út um bílgluggann. Karlinn var flottur í tauinu, flot greiddur og má mikið vera ef hann var ekki með gull í tönnunum.
Sölumaður sem talar mann í kaf. Talar endalaust, segir frá, spyr og svarar svo sjálfur. Ég setti höndina, sem ekki hélt á pokanum með ýsuflakinu, inn um gluggann á bílnum, lagði hana á öxl mannsins: „I thing you have to find another good looking man to deal with, my good man. Arrivederci. Saluti a Roma.“
LOL Þetta er stórkostlega fyndin saga!!! Jesús minn!!!
Já, þeir eru smeðjulegir. Og svo kjafta þeir mann í kaf; það er hluti af plottinu.