Við fylgdumst með úrslitunum í sveitinni. Þar var kalt, norðaustan strekkingur og súld á milli. Hitinn aðeins ein gráða yfir nóttina. Grátt í fjöll í morgun. Útivist á lágmarki. Höfðum önglað saman fyrir skilti á litla kofann okkar og settum það upp til bráðabirgða. Síðar fær það viðeigandi frágang úti við lóðamörkin.
Það var fremur hvimleitt að bíða eftir tölunum frá Borgarnesi. En niðurstaða kosninganna var eins og við reiknuðum með. Og vonuðum. Ásta var samt spenntari en ég. Maríuerlurnar léku stóran leik á kosningadaginn. Virðast venjast okkur og eru ekki eins styggar og oft áður. Þær eru hjón og leiguliðar hjá okkur. Uppi undir þakskeggi. Þær fá frítt. Þriðja sumarið.
Í okkar augum er Sjálfstæðisflokkurinn sigurvegari. Flokkurinn, þ.e. við kjósendur hans. Það teljum við helgast m.a. af orðum Geirs Haarde síðustu vikurnar um velferðarmálin. Hann talaði fallega til okkar eldri borgara og öryrkja og þeirra sem búa við bág kjör. Hann sagði að hann teldi að þar yrði að taka verulega á og „að það væri hans hjartans mál.“
Ég heyrði og sá hann segja það. Og treysti honum til að standa við orð sín. Betur en öðrum. Þannig býst ég við að margir hafi hugsað og kosið í samræmi við það. En honum er vandi á höndum. Vandi sem felst meðal annars í því að láta fara saman orð og athöfn. Það er ekki sérlega algengt í stjórnmálum.
Það er einnig vandi að velja sér samverkamenn úr öðrum flokkum. Við munum fylgjast grannt með hvernig honum tekst til við það. Margt hefur sést til Framsóknarflokksins sem veldur leiða. Þess hafur hann goldið núna. Fróðlegt verður að sjá hvernig nýr formaður spilar úr spilunum. Hann má ekki láta gamla flokksgengið hafa of mikil áhrif á sig.
Við kvöddum maríuerlurnar með nokkrum söknuði upp úr hádegi í dag. Sögðum þeim að við kæmum á miðvikudag með nýja poka með bragðgóðu korni handa þeim. Ef ég verð heppinn þá finn ég hæfilega skál til að setja vatn í handa þeim. Það verða vinafundir hvað sem gerist í stjórnmálunum. Og vonandi fer að hlýna.
Með kveðju til Geirs
Ósköp er þetta snoturt og vel útskorið skilti. Myndirnar af maríuerlunum eru líka einstakar.