Í nótt hefur vorið verið á ferli.
Og vorið er ekki af baki dottið,
því áður en fólk kom á fætur í morgun
var fyrsta grasið úr moldinni sprottið.
Og eins eru stelpurnar vaxnar, sem voru
í vetur svo litlar, að enginn sá þær,
og hreyknir strákar, sem fermdust í fyrra,
þeir fara hjá sér, þegar þeir sjá þær.
Nú ganga þær hlæjandi guðslangan daginn.
Sjá, göturnar fyllast af Ástum og Tótum
með nýja hatta og himinblá augu,
á hvítum kjólum og stefnumótum.
Og mennirnir verða viðmótsþýðir,
því veröldin hitnar og loftin blána.
Óvinir bera byrðar hvers annars
og bankarnir keppast við að lána.
En sumir halda að hausti aftur.
Þá hætta víst stelpur og grös að spretta,
og mennirnir verða vondir að nýju,
því víxlarnir falla og blöðin detta.
Tómas Guðmundsson.
Fagra veröld