Hannes var sestur á bekkinn áður en Helga bar að. Hann var í gömlum rykfrakka með hneppt upp í háls og kragann brettan upp. Þá hafði hann belti um sig miðjan og gúmmístígvél á fótunum. Á höfðinu var gulur hattur, sérkennilegur og band bundið undir hökuna. Úrhellisrigning hafði verið daginn áður, en nú voru hrinur af suðvestri með snjó- og slyddublönduðum skúrum og sá til sólar á milli. Hannes sat með hendur djúpt grafnar í frakkavasana og horfði norður yfir höfnina. Helgi skoðaði útganginn á Hannesi, rannsakandi augum. Sagði síðan:
Helgi: Er von á óveðri?
Hannes: Hvað áttu við?
Helgi: Þú ert þannig klæddur.
Hannes: Það var nú slagveður í gær.
Helgi: Það er rétt. En hann er skárri í dag, eða hvað?
Hannes: Það er engu að treysta.
Helgi: Ég var farinn að halda að eitthvað hefði komið fyrir þig.
Hannes: Nú?
Helgi: Það er svo langt síðan þú hefur mætt.
Hannes: Langt síðan?
Helgi: Já. Síðan síðast.
Hannes: Vikur kannski.
Helgi: Vikur? Á annan mánuð maður.
Hannes: Það hafa verið annir.
Helgi: Var ekki allt í lagi samt?
Hannes: Tvær hliðar á því.
Helgi: Nú?
Hannes: Já.
Helgi: Er það leyndarmál?
Hannes: Svo sem ekki.
Helgi: En hvað?
Hannes: Ég fór bara á smá námskeið.
Helgi: Fórstu á námskeið. Í hverju?
Hannes: Tölvu.
Helgi: Fórstu á námskeið í tölvu?
Hannes: Já. Er eitthvað merkilegt við það?
Helgi: Nei, alls ekki. Alls ekki. Gekk vel?
Hannes: Já, já. Þangað til ég kom heim með tölvuna.
Helgi: Hvað þá?
Sterk vindhviða þeytti rigningu framan í félagana. Alllöng þögn fylgdi á eftir. Hannes hnipraði sig saman og hagræddi bandinu á hattinum undir hökunni.
Hannes: Þetta var ferðatölva.
Helgi: Ferðatölva. Flott tölva?
Hannes: Hún var innifalin í námskeiðinu.
Helgi: Er það ekki snjallt?
Hannes: Þá er afsláttur.
Helgi: Já, auðvitað. Hvernig gekk svo þegar heim kom?
Hannes: Ekki alveg nógu vel.
Helgi: Hvað olli?
Hannes: Það kom alltaf eitthvert Error.
Helgi: Error?
Hannes: Það er ekki von að þú skiljir það.
Helgi: Nei, það er nú rétt. Fannstu svo út úr Errorinu, eða hvað það nú heitir?
Hannes: Ég fór aftur á námskeiðið.
Helgi: Aftur?
Hannes: Já. Fékk það á hálfvirði.
Helgi: Og aðra tölvu kannski?
Hannes: Nei.
Helgi: Og hvernig gekk?
Hannes: Ég gaf frænku minni hana einn daginn.
Helgi: Gafstu hana?
Hannes: Já.
Helgi: Af hverju?
Hannes: Bara.
Helgi: Og ertu þá laus við Errorið?
Hannes: Nei. Ekki alveg.
Helgi: Hvernig þá?
Hannes: Það er þegar ég ætla að fara að sofa…
Helgi: Hvað þá?
Hannes: Þá kemur það. Alltaf þegar ég loka augunum.
Hannes og Helgi eru með þeim skemmtilegri persónum sem ég hef kynnst um ævina. Ég vona að þeir eigi eftir að eiga mörg og innileg samtöl enn.