Síðasti vetrardagur. Hljómar vel. Sumardagurinn fyrsti. Hljómar betur. Fjöllin þó enn klædd hvítu. Heitum á sólina að ylja svo gil og skorninga að fönnin víki bráðlega og grænar tungur nái hærra upp í hlíðar en í fyrra.
Helgi og Hannes – leyndarmálið
Hannes var sestur á bekkinn áður en Helga bar að. Hann var í gömlum rykfrakka með hneppt upp í háls og kragann brettan upp. Þá hafði hann belti um sig miðjan og gúmmístígvél á fótunum. Á höfðinu var gulur hattur, sérkennilegur og band bundið undir hökuna. Úrhellisrigning hafði verið daginn áður, en nú voru hrinur af suðvestri með snjó- og slyddublönduðum skúrum og sá til sólar á milli. Hannes sat með hendur djúpt grafnar í frakkavasana og horfði norður yfir höfnina. Helgi skoðaði útganginn á Hannesi, rannsakandi augum. Sagði síðan: