Það var gott í sveitinni um helgina. Fylgdumst með úrslitum framhaldsskólanna. Stóðum með MK. Úrslitum réði heppni fremur en færni. Fylgdumst einnig með kosningum í Hafnarfirði. Hefðum kosið með stækkun hefðum við haft kjörgengi þar. Nú væri við hæfi að forsprakkar Sólar í Straumi kæmu með tillögur til bjargar afkomu manna á vestfjörðum. Þar þrengir að.
Reynslan hefur þó kennt að það er auðveldara að vera á móti málefnum en með. Eiginlega geta allir verið á móti, það þarf varla nema hávaða. Með ólíkindum er hve margir hrífast af hávaða.
Í þessari sveitadvöl okkar sáum við í sjónvarpi auglýsingu frá Húsasmiðjunni. Svokallaður „besti gospelkór“ á Íslandi lék aðalhlutverk auglýsingarinnar. Ég sá ekki betur en kórstjórinn fengi krampaflog við stjórnunina og konur á sextugsaldri hristu sig og kvíuðu eins og gelgjuunglingar. Kannski eru þær enn á fyrra gelgjuskeiðinu.
Og dymbilvika er hafin. Hljóðavika heitir hún einnig og kyrravika. Magnþrungnir háheilagir dagar þeim sem speki himinsins fékk aðgang að. Í gegnum aldir og sögu eru þessir dagar dýrir. „Drag skó þína af fótum þér, því að sá staður, er þú stendur á, er heilög jörð.“ Þannig hljóðaði Orðið þeim sem það náði til. Og enn snýst málið um Orð. Orð sem mótuð eru af hugsun – Guðs, – kærleikans – elskunnar sem lifir því markmiði einu að vera smyrsl á sár huga og hjarta.
Og höfðingjarnir, valdsmenn og lærðir, tóku sig saman og gerðu áætlun um að aflífa Orðið sem hafði tekið sér bústað í manninum frá Nasaret, Kristi Jesú, en skildu ekki að Orðið er ekki hægt að aflífa, það lifir og græðir enn sem fyrr.
Og múgurinn, sem dáði hávaða, fagnaði innreið meistara Orðsins af miklu afli á sunnudeginum sem kenndur er við pálma. Og sami múgur, sem dáði hávaða, tók fjórum dögum síðar áskorun höfðingjanna og æpti af enn meira afli en áður; Burt með hann! Krossfestið hann. Enginn skildi að kærleikurinn verður ekki aflífaður og að hávaði kemur aldrei í hans stað.
Á leiðinni heim í gær, síðdegis, mátti sjá álftaparið mætt á vatnið á hálsinum milli sveita. Eitt sinn enn. Og lífið heldur áfram.