Hefði hann lifað hefði hann orðið hundrað ára í dag. Pabbi minn. Hann fæddist 30. mars 1907. En hann lést tiltölulega ungur eða fimmtíu og fjögurra ára. Afmælisdagurinn hans var mér alltaf hátt í minni. Sérlega þegar ég var drengur. Það er af því að þetta var dagurinn hans pabba. Ég man eftir hrifningunni sem fyllti huga minn þegar þessi dagur kom.
Við reyndum stundum að kaupa eitthvað handa honum en það var alltaf lítið um aura. Hann hafði sveinspróf í skósmíðum og hafði, til að byrja með, aðstöðu uppi í risi á Bjargi. Það var ósköp þröngt. En hann smíðaði þarna „rússaklossa“ sem voru í tísku þau árin hjá konum. Einskonar káboyklossa. Og hafði tæpast undan. Svo þegar hann hafði stækkað Bjarg og lyft því upp þá útbjó hann verkstæði í kjallaranum.
Á daginn vann hann við pípulagnir. Fyrst hafði hann fengið réttindi sem gaslagningamaður, en í Reykjavík á þeim árum var rekin gasstöð. Hún stóð þar sem Lögreglustöðin við Hlemm er núna. Svo var hætt við gasið og þá fékk pabbi löggildingu sem pípulagningamaður. Stundum fékk ég að fara með honum í viðgerðir. Það var svo gaman að horfa á hann vinna.
Á tímabili átti hann lítið mótorhjól, væri sennilega kallað skellinaðra nú til dags. Ég á eina mynd af honum á mótorhjólinu. Hún er tekin fyrir utan Grettisgötu 61, þar sem afi Ólafur og amma Hreiðarsína áttu heima. Pabbi hafði skósmíðaverkstæði í húsinu þeirra þegar hann var ungur maður.
Hann stofnaði líka Lúðrasveitina Svan. Þeir æfðu stundum í kjallaranum á Grettisgötunni. Á tyllidögum fóru þeir í búninga með kaskeiti og marseruðu um götur og héldu hljómleika hér og þar. Það er nú að miklu leyti fyrir mitt minni. Svo lærði hann söng og hélt eina tónleika. Það er líka fyrir mitt minni. Það voru margar konur heillaðar af honum. Það sagði mamma mín og var ekkert sérlega ánægð yfir því
Svo var hann mikill stangveiðimaður. Átti margar stangir og hjól og flugur og spóna. Sumar flugurnar hnýtti hann sjálfur. Það var mjög gaman að horfa á hann hnýta flugur. Svo hittust þeir karlarnir á sunnudagsgöngutúrunum þegar hann fór niður að höfn og keypti Fish and Chips hjá Bretunum og ég var með. Ég man enn eftir lyktinni og bragðinu. Þeir krydduðu það með ediki. Og þeir töluðu um flugur og veiði.
En það grúfði skuggi yfir tilverunni okkar. Skuggi sem dökknaði og stækkaði og tilveran sprakk í loft upp og mamma treysti sér ekki til að búa með honum og þau skildu eftir erfið sambúðarár. Og þá kom fleygur á milli fjölskyldu pabba og fjölskyldu mömmu og allt samband við ömmu á Grettisgötunni rofnaði. En afi Ólafur hafði dáið áður en þetta gekk yfir.
Ég hugsa til pabba míns í dag. Sum öflin í brjósti hans voru honum ofurefli og knésettu hann. En engir geta valið sér gen, þau koma sér sjálf fyrir í fólki og sum þeirra bera í sér bresti. Ég blessa minningu hans. Hann var pabbi minn.
Sæll frændi!
Til hamingju með hann pabba þinn heitinn!
Ég hitti hann sjálfsagt einhver skipti en man ekkert eftir því, ég var svo lítil bara 2ja-3ja ára. Ég er alin upp á Grettisgötu 61 frá tveggja ára aldri til 10 ára ásamt foreldrum mínum og bróður. Við bjuggum hjá langömmu og Hreiðari Ólafssyni frænda sem bjó í kjallaranum. Já ég var þeirra gæfu aðnjótandi að hafa félagsskap langömmu, Hreiðarsínu í ein 8 ár sem er mér ómetanleg minning úr æskunni. Yndislegi ævintýralegi garðurinn, brakið í útisyrahurðinni, döðlubiti eða kandís inni hjá (lang)ömmu og ég fékk oft að leika mér með töluboxið hennar á gólfteppinu… góðar minningar.
Það er svo gaman að lesa skrifin þín um gamla tíma og lífið eins og þú minnist þess. Þakka þér fyrir,
Guðný María Hreiðarsdóttir, Guðjónssonar bónda St-Hofi
Falleg skrif sem snerta mig virkilega.
Takk fyrir allt sem þú skrifar.
Kveðja
GÁ
Ósköp eruð þið elskuleg.
Það er svo gott að finna fyrir vinsemd fólks.
Hafið þökk fyrir hlýleg orð.
Það er svo notalegt að lesa um minningarnar. Þær eru svo vel skrifaðar og lifandi, og fyrir vikið sökkvi ég mér á kaf og upplifi þær sjálfur. Svipað og gerist með vel skrifuð ævintýri.
ég sendi þér góðar kveðjur á afmælisdegi föður þíns
það er gott að lesa hlýlega pistlana