„Veistu hvað?“ sagði´ ann. Svo kom þögn. Það var löng þögn. Hún var bæði breið og hljóð. Þagnir eru mismunandi hljóðar eins og þú veist.“ Svo horfði hann yfir stofuna eins og þar væri einhver. Og sagði:
„Það tók mig tvö ár að læra þetta. Gerði alltaf sömu skyssuna fyrst í stað. Hún fólst í því að ég spurði. Það voru mistökin. Að ég spurði. Síðustu tíu til fimmtán árin höfðu allir morgnarnir verið eins. Hæglátir og mjúkir og dálítið rökkvaðir. Þar til hún dró gluggatjöldin frá. Ég fór ávallt fram úr áður en hún vaknaði. Sat og hélt á bók. Opinni. Beið eftir að hún vaknaði. Það var alltaf svo blíðlegt þegar hún kom fram og lífið hófst.
Ég hlustaði eftir því að hún rumskaði. Og rétti aðeins úr bakinu þegar ég heyrði hana færa sængina til. Eftir hálfa mínútu eða svo settist hún framá. Það voru einu hljóðin í íbúðinni. Ég lokaði bókinni til að hlusta á feril hennar á fætur. Hann var alltaf eins. Eins og tónlist fyrir mér, sem ég naut svo innilega. Næst fór hún í slopp og geispaði pínulítið og endaði geispann með lágu ahhh-i. Svo heyrði ég að hún stakk fótunum í inniskóna sína og fór inn á bað.
Litlu síðar gekk hún fram í eldhús og lagaði kaffi. Ég þekkti öll hljóðin. Hún tók vatn úr krananum og hellti í könnuna, henti gamla kaffipokanum í ruslapoka undir vaskinum, bleytti nýjan kaffipoka undir krananum og kom honum fyrir í könnunni. Þvínæst opnaði hún ísskápinn og sótti kaffi og skammtaði í pokann, lokaði könnunni og kveikti á henni. Setti kaffið aftur inn í ísskápinn og lokaði honum. Þessu næst fór hún og dró frá gluggunum og hleypti dagsbirtunni inn. Þá sagði ég stundarhátt: „Ertu þarna elskan mín?“ Og þá var hún vön að segja: „Já, vinur. Loksins.“ Og ljúfur og elskuríkur dagur fór í hönd.
En svo, þegar allt hafði breyst og hún var farin, hélt ég áfram að fara fram úr og setjast í stólinn minn með bók. Og ég hélt áfram að heyra öll hljóðin sem fylgdu fótaferð hennar og spurði eins og ég hafði alltaf gert: „Ertu þarna elskan mín? Og auðvitað fékk ég ekkert svar. Bara þykkan, harðan, kökk í hálsinn.
Nú lokaði gamli maðurinn augunum og ennþá lengri þögn en í fyrstu brast á. Það var djúp þögn. Breið þögn og hljóð. Síðan hvíslaði hann: „Svo lærði ég að spyrja ekki. Þá hættu vonbrigðin yfir því að fá ekki svar.“
=:’