Parísarborg hefur heldur betur umlukt hugarfar mitt þessa dagana. Undanfarin dægur hefur bókin „Í reiðuleysi í París og London“ átt fyrsta sæti í lestrarástunduninni. Ævintýraleg frásaga af daglegu lífi fólks sem lifir og hrærist á mörkum afkomu og afkomuleysis. Lægsta stétt. Það er að segja, fólks sem dvelur í París, atvinnulaust oftast, hungrað oftast, en gengur um götur borgarinnar, mílu eftir mílu, á hverjum degi í leit að atvinnu, handtaki eða smáviki til að eiga fyrir matarbita og húsaleigu í fátæklegum og nöturlegum gististöðum.
Orð vikunnar
„Hvílíkt brjálæði að lifa eins og bjálfi til þess að deyja ríkur.“
Robert Burton
Frankie Laine
Hann náði til okkar um miðja síðustu öld. Þá vorum við táningar, glaðbeittir, hrifnæmir, rómantískir. Og ástfangnir. Frankie söng af mikilli innlifun og við hlógum þegar hann hló og grétum þegar hann grét. Á sama hátt kom hann inn í tilfinningasveiflur okkar og studdi okkur. Fregnir bárust um að hann hafi látist 6. febrúar síðastliðinn, níutíu og þriggja ára að aldri.
Við kynntumst á hnjánum
Var við útför vinar í dag. Frá Bústaðakirkju. Séra Pálmi Matthíasson jarðsöng. Það var fjölmenni. Margir þurftu að standa, bæði við veggi og í fordyri. Það kom á óvart. Í mínum huga var vinurinn innhverfur einstaklingur. Maður fárra orða. Hógvær og lítillátur. Við kynntumst á hnjánum. Það er yfirleitt öðruvísi fólk sem ég kynntist á hnjánum. Krjúpandi í bæn til frelsarans: „Jesús. Jesús Kristur. Ég er hjálpar þurfi. Æ, viltu hjálpa mér.“