Nú endar leikurinn í dag. Væntanlega kominn tími til. Tvennt sem tengist honum kallar á vangaveltur. Í fyrsta lagi, þetta með félagslega tengingu mína. Hún virðist vera í þvílíku lágmarki að eina samband mitt við annað fólk en fjölskylduna, sé við kassa stórmarkaða. Þannig hófst leikurinn síðastliðinn mánudag. Og þannig gerðist fyndið atvik í gær.
Mig vantaði esdragon edik í matargerð dagsins. Brá mér því fyrir hádegi hér neðar i götuna í verslun Nettó. Þar sá ég aðeins tvær edikstegundir, rauðvíns og hvítvíns. Enda lítil búð. Ákvað þá að breyta áætlun um matargerð dagsins og sótti pela af rjóma og box af sýrðum 10%. Kom síðan að kassanum. Það var sárafátt í versluninni. Ein kona á undan mér. Liðlega þrítug, á að giska, geðsleg og eðlileg.
Kona þessi hafði keypt poka af kleinum, eina kók og tóbak, líklega smávindla. Ég þekki ekki pakkninguna. En á henni stóð, nokkuð stórum stöfum: TÓBAK DREPUR. Þar sem ég var nokkuð frjáls í skapinu og konan virtist einnig í „god humor“, eins og sagt er á dönsku fornmáli, þá hrökk út úr mér: „Er áætlað sjálfsmorð í dag?“ Konan hló við og sagði: „Já heldur betur. Sjáðu bara , kleinur, kók og TÓBAK DREPUR.“ Svo bætti hún við kímin: „En hvað ert þú með?“ og benti á rjómann minn. „Tveggja daga skammt af kólesteróli,“ svaraði ég. „Drepur það ekki líka?“ bætti hún við og átti þar með síðasta orðið. Þetta var skemmtilegt.
Svo ég komi aftur að „manneskjunni okkar“, þeirri sem leikurinn fjallaði um, þá skil ég ekki alveg hvað hún var að gera í Bónus. Auðvitað getur það átt sér sálfræðilega skýringu og væri verðugt að velta því fyrir sér. En læt staðar numið hér. Lýsi yfir innilegu þakklæti mínu til þeirra sem létu svo lágt að leika við mig þessa daga. Ég hafði mjög gaman af.
„Manneskjan“ okkar er kona, tannlæknir, liðlega fertug, klæðist skósíðum pels, ljósum, og ekur um á Cayenne Porche, V8 TwinTurbo, með skoðun 2010.
Takk fyrir.
Ég tek þetta sem áskorun og hugleiði málið jákvæður.
Þetta er bráðskemmtilegur leikur. Kannski hann verði endurtekinn síðar og ég geti tekið þátt.
Glæsilegt.
:] Takk fyrir það
Sæll þetta var skemmtilegt og takk fyrir síðuna. Betra að kíkja á heimasíðuna en hlusta á umræðuna sem er búin að vera í öllum fjölmiðlum undanfarið, og er þjóðinni til skammar finnst mér.Kveðja.