Parísarborg hefur heldur betur umlukt hugarfar mitt þessa dagana. Undanfarin dægur hefur bókin „Í reiðuleysi í París og London“ átt fyrsta sæti í lestrarástunduninni. Ævintýraleg frásaga af daglegu lífi fólks sem lifir og hrærist á mörkum afkomu og afkomuleysis. Lægsta stétt. Það er að segja, fólks sem dvelur í París, atvinnulaust oftast, hungrað oftast, en gengur um götur borgarinnar, mílu eftir mílu, á hverjum degi í leit að atvinnu, handtaki eða smáviki til að eiga fyrir matarbita og húsaleigu í fátæklegum og nöturlegum gististöðum.
Boris, félagi höfundarins af tilviljun, hefur reynslu af störfum í veitingahúsum og hótelum og leitar á þau mið. Höfundurinn hefur enga reynslu af slíkum störfum en til að auka líkur á að hljóta starf segist hann vera góður uppvaskari. Frásögnin af stéttarskiptingunni innan hótelsins sem þeir fengu starf á, eitt skiptið, er aldeilis makalaus lesning og lærdómsrík og fær mann til að staldra við og íhuga hvað samspil manna er í eðli sínu líkt á öllum tímum í öllum löndum.
Á einum stað þegar þeir félagarnir eru að koma í atvinnuviðtal við hóteleiganda, segir: „Eiginkona hans var þarna líka, hryllileg, feit, frönsk kona, náhvít í framan og með skarlatsrauðar varir, andlitið minnti mig á kalt kálfakjöt og tómata. […] Ég stóð til hlés og bjó mig undir að ljúga einhverju mikilfenglegu um reynslu mína af uppvaski.“
Staddur í þessari frönsku Parísarniðurlægingu síðustu dægur, segir frá því í Lesbók í morgun að kvikmynd eftir bókinni Ilmurinn, eftir þýska rithöfundinn Patrick Süskind, sé komin í bíó. Þetta varð til þess að ég leitaði í bókahillunum mínum og fann bókina fram. Hún var á sínum tíma mjög umrædd. Og hef verið að lesa í henni í dag og rifja upp efni hennar og ilm. Það verður að segjast eins og það er, að sjaldan eða aldrei hefur Parísaborg lyktað jafn illa í huga mínum og í dag.
Göturnar eru skítugar og rökkvaðar, fólkið er skítugt og rökkvað og að lesa þessa skítugu og rökkvuðu París í gegnum nefið á Jean-Babtiste Grenouille er heilmikil lífsreynsla. En ég er ákveðinn í að sjá kvikmyndina og bjóða Ástu minni með mér. Tek mér hér í lokin bessaleyfi og birti nokkur orð úr bókinni. Vona að ég verði ekki lögsóttur.
„Mannfólkið lyktaði af svita og óhreinum flíkum, úr vitum þess gaus andremma frá skemmdum tönnum og upp frá maganum steig lauklykt, en líkamar þeirra sem farnir voru að eldast lauguðust ódaun af mygluðum osti, mjólkursýrum og bólgum. Árnar voru daunillar, torgin daunill, kirkjurnar daunillar, […] konungurinn lyktaði meira að segja eins og óargadýr og drottningin eins og geit.“
Þú ert elskuleg.
ekki vildi ég senda þig í útlegð :]
en kannski vildi ég senda þig þangað sem ég vildi fara, þarsem ég hef ekki tíma sjálf.
b
Kæra Birna.
Gaman að heyra frá þér. Ábending þín elskuleg.
Samt fékk ég á tilfinninguna að þú vildir senda mig í útlegð! Manstu hvað Hemingway sagði um París?
Þar fyrir utan hef ég aldrei náð tökum á hvítlauk.:-)))
Ilmurinn er ógleymanleg bók. Jafnvel þar er París heillandi. En ef þig langar útfyrir höfuðborgina, í lauklykt sveitahéraðanna þá er hér hús til leigu í smáþorpi í Frakklandi. http://www.simnet.is/kmhsk/
Ég sé fyrir mér rauðvín í karöflu og ostbita ..
b