„ […] muna vart eftir jafn tilfinningaþrunginni stund innan veggja hans (Háskólans). […] Virðulegir prófessorar tóku upp vasaklútinn og deildarforsetar viknuðu. […] Sælan er allsráðandi. […] ég er afskaplega stolt af þessum samningi […] sagði ráðherra .“ Svo ritaði Moggi í gær.
Í öðru blaði, í dag, tjá sig tvær ungar konur úr stjórnarliði Röskvu og segja: „Röskva treystir því að þessi samningur marki endalok áforma stjórnvalda um að innheimta skólagjöld við Háskóla Íslands.“
Auðvitað samgleðjast allir Háskóla Íslands með hinn risavaxna samning sem tilkynnt var um í liðinni viku. Það er stórkostlegur samningur sem mun gjörbylta öllu starfi stofnunarinnar. Aðdáendur menntunar og þekkingar hljóta að fagna mjög innilega og af einlægni, og láta þá hlið málsins sem snýr að ráðherrum liggja milli hluta, ráðherrum sem með sjálfsvarnartilburðum útdeila fjármagni þjóðarinnar til að kaupa sér velvild fyrir kosningar til Alþingis. En það hefur svo sem alltaf gerst, hvernig svo sem ríkisstjórnir eru samansettar. Og verður.
En það er þetta með spilakassana? Hefur Háskólinn ekki loksins efni á að hætta með þá? Getur hann lengur, sóma síns vegna, staðið með lappirnar í vilpunni og fiskað fé af veikum fíklum og lasburða sálum? Er ekki kominn tími til að starfsmenn hans rétti úr bakinu og sýni að þeir séu samningsins stóra verðugir. Það mundi gleðja unnendur Háskólans.