Aftur og aftur
viku eftir viku
mánuð eftir mánuð
og ár eftir ár
hef ég farið af stað
til að leita
sprenglærðir menn
staðhæfðu fjálgir
aftur og aftur
öld eftir öld
að allir sem leita
og leita og leita
víst muni finna
sýnist mér nú
á síðari árum
að flestallir menn
karlar og konur
sem leituðu´og leita
oftastnær finni
eitthvað allt annað
en leitað var að
ár eftir ár
kom ég vonsvikinn heim
úr sérhverri leit
með annarra fjaðrir
gular og grænar
rauðar og svartar
en fann aldrei neina
í mínum lit
lit sem ég hélt
öll árin ég þekkti
en þekki ekki enn.