Við áttum boð í Skálholt. Kristinn og Harpa buðu okkur í heimsókn með gistingu. Fórum við þangað full af eftirvæntingu um hádegisbil á laugardag. Bjart var yfir landinu, heiðskírt og sólin glaðleg.
Kristinn var í sumar ráðinn rektor við Skálholtsskóla og tók hann við starfinu í ágústmánuði. Harpa konan hans er einnig starfsmaður skólans. Sautján manns starfa við stofnunina sem auk þess að vera skóli og menntastofnun rekur gistihús og veitingasölu. Kom okkur á óvart að sjá hús, hýbýli og alla aðstöðu staðarins og að heyra af því margbreytilega starfi sem í Skálholti er sinnt.
Vafalaust hafa flestir heyrt af svokölluðum kyrrðardögum skólans, en þeir hafa með hverju ári orðið eftirsóttari svo og sumartónleikar í hinni miklu kirkju staðarins. Vísa ég hér til heimasíðu Skálholts um starfsemi skólans og Skálholtsstaðar.
Það má nefna það til gamans að í gær á sunnudegi var búið að dekka borð fyrir hundrað manna ættarmót fólks úr sveitinni og undir kvöld var svo von á áttatíu útlendingum í mat og gistingu í fimm daga. Á góðum degi koma allt að sautján rútubílar við í Skálholti til viðbótar einkabílum sem stöðugt fara þar um.
En við Ásta vorum þarna í einkaheimsókn hjá Kristni syni okkar og Hörpu tengdadóttur og nutum gestrisni þeirra og elsku í öllum atriðum, ótrufluð af erli staðarins. Í gær fórum við saman til messu í hina miklu kirkju þar sem sóknarpresturinn, séra Egill Hallgrímsson, prédikaði og þjónaði fyrir altari.
Í messulok var altarisganga, kropið við gráturnar og þegið af brauði og víni í minningu Drottins Jesú Krists sem sagði: „…gerið þetta í mína minningu“. Söknuðum við þess að í kirkju þessa sögufræga staðar var hvorki organisti né kór við messuna.
Hér fyrir ofan, frá hægri: Biskupssetrið, skólinn og hús rektors
Við Kalman óskum ykkur innilega til hamingju með soninn og fjölskyldu hans og óskum þeim gæfu og gengis í sínu starfi.
Það var svo gaman að skoða þessar fallegu mydnir á ánægjulegum degi ykkar Ástu.
Bestu kveðjur, Bryndís og Kalman.