Helgi hafði setið alllengi á bekknum þegar Hannes loksins mætti. Hannes var klæddur í gamlan felubúning, víðar buxur og hermannajakka sem var hnepptur upp í háls og kraginn uppbrettur. Þá bar hann Green beret húfu á höfðinu. Til fótanna var hann í háum uppreimuðum hermannaklossum. Loks var hann með risastóran gulan innkaupapoka á öxlinni.
Helgi: Þú ert vígalegur í dag?
Hannes: Já.
Helgi: Hvað er á döfinni?
Hannes: Ég fór i göngu.
Helgi: Fórstu í göngu?
Hannes: Já. Tveggja tíma göngu.
Helgi: Það er harkan.
Hannes: Já.
Helgi: Og hvar gekkstu?
Hannes: Garðabæ.
Helgi: Garðabæ?
Hannes: Glæný.
Helgi: Nú?
Hannes: IKEA.
Helgi horfði lengi þögull á vin sinn og félaga og reyndi að átta sig á honum. Hannes horfði meitluðum svip út yfir höfnina.
Helgi: Þetta hefur verið talsverð ganga.
Hannes: Tveggja tíma. Ég var búinn að segja það.
Helgi: Já. Fyrirgefðu. Keyptir þú eitthvað?
Hannes: Sænskar.
Helgi: Sænskar hvað?
Hannes: Kjötbollur.
Helgi: Góðar?
Hannes: Tíu stykki. Flottur matsalur.
Helgi: Tíu stykki?
Hannes: Já. Langaði í meira. Beitti aga. Margt fólk.
Helgi: En þessi stóri innkaupapoki?
Hannes: Hann var gefins við innganginn.
Helgi: Þetta er mikill poki.
Hannes: Já.
Helgi: Verslaðir þú eitthvað í pokann?
Hannes: Ekki mikið.
Helgi: Og er þá ekkert í pokanum?
Hannes: Tveir blýantsstubbar.
Helgi: Blýantsstubbar?
Hannes: Þú veist. Þessir litlu. Merktir IKEA.