Það er auðvitað komið haust. Og haust koma árlega að hverju sumri liðnu. Og litir jarðar breytast. En samt er allt fullt af lífi. Það haustar einnig í lífi fólks og haustlitir skreyta það á svipaðan hátt. En samt er allt fullt af líf. Og við Ásta mín fórum að loknu stórafmæli og veislu í fyrrakvöld upp í Borgarfjörð í hreiðrið okkar Litlatré og nutum haustsins, alls sem við sáum og hvors annars.
Í morgun fórum við í litla skoðunarferð um nágrennið. Ásta ók okkur á sínum risasmáa Yaris og ég sat í farþegasætinu með nýja stafræna myndavél og gerði nokkrar tilraunir. Á gömlum og afar kærum slóðum sáum við fegurð haustsins í hrífandi litadýrð sem erfitt er að lýsa með orðum. Töfrandi reyniviður í gömlum ungmannafélagsreit sem gróðursettur var snemma á síðustu öld.
Og samspil ljóss og skugga við munna Bæjargils í Gilsbakkalandi minnti á glæfralegt klifur sumarstráka í sveit, fyrir margt, margt löngu.
Þá sáum við konu úti í Hvítá háfa sjóbirting sem hafði gleypt við agni hennar og smituðumst af veiðigleðinni sem hlaut að fylla brjóst hennar.
Svanafjölskylda varð á vegi okkar. Par með unglinga tvo. Fyrir viku voru ungarnir þrír. Einn var horfinn yfir móðuna.
Loks mættum við ungri konu taka reiðskjóta sinn til kostanna. Þau voru einbeitt á svipinn og innhverf. Gleðin og hamingjan orðuð svo óaðfinnanlega af Einari Ben. „Ef inni er þröngt, takk hnakk þinn og hest….“ Hér var drottning um stund.
Og Litlatré eins og lýsandi hamingjureitur í tilveru okkar. Sólin dansandi í hverri spýtu sem hjónin höfðu sagað, sniðið og neglt eða skrúfað. Um árabil.
„Og ástin mín Ásta, lykillinn lífi að mínu,“ eins og segir í ástarkvæðinu Litlatré. Sem lesa má hér.
Niðurstaða dagsins, ársins og aldursins er: Allt fullt af lífi
Stórglæsilegt!