„Einu sinni, ha, veistu, þegar ég var lítill, og það var afmæli þá gaf mamma mér, ha, tuttugu og fimm aura og bróður mínum líka. Og við fórum, veistu, fórum útí bakaríið í Pöntó á Smyrilsveginum og keyptum rjómakökur. Eina á mann. Og við vorum búnir með þær þegar við komum heim. Næst þegar ég átti að eiga afmæli, ha, þá lét mamma mig ekkert eiga afmæli. Við vorum svo fátæk og henni leið svo illa. Það var af því að pabbi hafði ekki komið heim í nokkra daga.
Ég man alltaf hvernig augun í henni breyttust þegar henni leið illa. Og þá fór mér að líða illa líka. Og ég vissi ekki hvernig ég átti að vera. Svo þegar hún var búin að gráta í dáldinn tíma þá hætti hún að gráta. Og ég líka. En ég þorði ekki að segja neitt við hana. Þá hefði hún kannski byrjað að gráta aftur. Ég sat bara á stól við eldhúsborðið og beið eftir að hún byrjaði að tala.
Svo kom hún og tók mig upp og faðmaði mig og kyssti mig voðalega mikið. Mér fannst það ekki gott. En henni leið betur á eftir. Og svo hitaði hún kakó og bakaði pönnukökur og stráði sykri á þær og rúllaði þeim upp. Bróðir minn borðaði mest af þeim. Það var ekki fyrr en pönnukökurnar voru búnar að hún sagði eitthvað. Svo um kvöldið þegar hún kom og kyssti mig góða nótt, þá voru augun í henni aftur breytt og ég fann tárin úr augunum hennar drjúpa á kinnina á mér. Seinna um kvöldið læddist ég inn til hennar og skreið uppí hjá henni. Hún var með ekka í bakinu.“
Nú er mamma löngu hætt að gráta. En ég klökkna þegar ég rifja upp hvað hún átti oft bágt þegar ég var lítill drengur. Og gat ekkert gert fyrir hana. Bróðir minn skipti sér aldrei af svona. Hann var bara úti að leika með strákunum. Og kom helst ekki heim nema rétt til að borða og drekka. En mamma hafði mig til að hugga sig við. Og kela.
Nú átti ég afmæli í gær. Eitt afmælið enn. Og vinir mínir héldu veislu í Perlunni og buðu mér og Ástu. Þarna voru Stefanía Hrönn og Friðrik, Jón Gils og Marina, Steindór og Sigurrós, Ágúst og Sigríður, Gunnbjörg, Kristinn og Harpa og Brynjólfur og Ráðhildur. Og svo auðvitað við Ásta mín. Við snæddum góðan mat og fengum guðaveigar með. Og töluðum og töluðum og hlógum og hlógum og borðuðum og borðuðum. Og svo sungu allir „Hann á afmæli í dag, hann Óli.“
Það var ákaflega ánægjulegt kvöld og engin grét.
takk fyrir frásögnina
Heill og sæll. Innilegar hamingjuóskir með afmælið. Ég hélt reyndar að stóri dagurinn væri í dag og var rétt að segja Einari að nú væru þið í Perlunni að fagna og ég ætlaði að senda línu. Einar biður að heilsa með hamingjuóskum. Kveðja til Ástu líka, Sigrún