Í áratugi hef ég vaknað
snemma á laugardagsmorgnum
og sótt blöðin í póstkassann
á meðan vatnið seytlaði
í gegnum kaffipokann
niður í könnuna
fullur af tilhlökkun
og eftirvæntingu
í áratugi hef ég lesið
snemma á laugardagsmorgnum
með fægðum gleraugum
og blýant í hendi
til að undirstrika
og skrifa athugasemdir
og gleymt að drekka
kaffið í könnunni.
í áratugi hef ég lesið
snemma á laugardagsmorgnum
greinar og texta um mannvit
mál og hulda visku
og skáldskap
fegurð og víðáttu tungu
og viðað úr
í áratugi
á liðnum vikum hef ég margreynt
snemma á laugardagsmorgnum
að finna greinar sem forðum
mál og myndir og texta
af dýrum rótum
en sýnist þvaðrið
stöðugt bólgna
á heilum opnum
í áratugi hef ég notið
snemma á laugardagsmorgnum
þess að lesa aftur og yfir
en nýir tímar
breyta mörgu
nú hef ég daginn
við gluggann góða
og kaffið fyrst.