Við litum við hjá henni á Borgarspítalanum í gær. Það var síðdegis. Hún er í sinni fyrstu innlögn á sjúkrahús, níutíu ára gömul, eftir blæðingu inn á heilann fyrr í sumar. Við blæðinguna lamaðist hægri hlið líkamans. Fremur litlar líkur voru taldar á að svo fullorðin kona endurheimti tapað afl. En þessari hetju er ekki fisjað saman. Nú lyftir hún hægri hendinni upp fyrir höfuðið, gengur um með „löbbuna“ sína og fer stiga á milli hæða tvisvar á dag. Einnig hafa einkenni í andliti horfið.
Ég er að tala um hana Ingibjörgu Brynjólfsdóttur frá Hlöðutúni í Stafholtstungum. Hún er föðursystir Ástu en ásamt okkur var Kristín Lív, ellefu ára, með í för. Ingibjörg, eða ætti ég að segja, Imba í Hlöðutúni, ræddi við okkur um heima og geima og var með á öllum nótum. Þegar ég spurði hana hvort hún vildi togast á við mig rétti hún mér hægri höndina samstundis og var afl hennar ótrúlegt.
Myndin hér fyrir ofan, af Imbu og Ástu, er tekin 1945 í Hlöðutúni.
Undir lok minnar þátttöku í heimsókninni, en hún og Ásta höfðu þá stungið saman nefjum um allnokkra hríð, spurði ég Imbu hvort hún læsi bækur. „Ég hlusta á bækur,“ svaraði hún, „ég hlusta á bækur, því ég sé ekki nógu vel.“ Hlusta á bækur. Þetta orðalag hafði ég ekki heyrt og hreifst af því. En í því felst að fólk fær lánaðar hljóðbækur (bækur lesnar inn á hljóðsnældur) og spilar þær. Það er hrífandi að heyra níræða konu á sjúkrahúsi segja: „Ég hlusta á bækur“. Það er líf í slíku fólki.
„Labba“ er göngugrind, grind á hjólum „einskonar vagn sem aldraður maður eða öryrki hefur til stuðnings við gang.“ Símtal til Sjálfsbjargar staðfesti að hjálpartækið er í daglegu tali, á meðal þeirra sem það umgangast, kallað labba, kvenkynsnafni sem dregið er af sögninni að labba. Það er skemmtilegt að læra tvö orð í tengslum við heimsókn á sjúkrahús. Fylgja pistli þessum baráttukveðjur og bestu óskir til allra sem fást við að endurheimta tapað afl.