Fyrir þremur árum kom ég við í ljósmyndastofunni Nærmynd, Laugavegi 178. Mig vantaði mynd í endurnýjun ökuskírteinis. Mætti einstakri lipurð. Hóf að ræða ljósmyndun og vélar við manninn, Guðmund, sem rekur fyrirtækið. Hann vildi allt fyrir mig gera og upplýsa mig af einstöku örlæti. Ég var kominn með stafræna myndavél á heilann þegar þetta var. Hann sagðist reyndar vera Nikon maður og lagði sig samt fram um að fá mig til að skipta frá Canon, sem ég hafði átt í mörg ár. Það olli mér talsverðum átökum.
Skipti samt ekki. Eignaðist í framhaldi litla og sæta Canon G-3. Hún er svo sem ágæt svo langt sem hún nær, en hún nær aldrei alla leið. Þess vegna hefur löngun í alvöru vél verið að vaxa innra með mér þessi árin. Allskyns tillögur fæðst – Canon 350D, Canon 20D, Canon 30D – Canon 5D – og dáið. Fór fyrir skömmu niður í Nærmynd og hitti Guðmund að nýju. Hann ræddi við mig af sömu alúð. „Keyptu „body“ og ég skal lána þér linsu til að byrja með.“
Núna er ég búinn að taka ákvörðun. Er afskaplega ánægður og friður og ró hafa færst yfir sálina og andann, hvað stafræna myndavél varðar. Eftir ákvörðunartökuna fór ég og skoðaði heimasíðu Nærmyndar. Þar eru fallegar myndir sem vert er að skoða. Myndir sem sýna vönduð vinnubrögð fagmanns. Þú ættir að líta þar við, það er þess virði. Smelltu hér
Já. Nikon varð fyrir valinu.
Og varð Nikon þá fyrir valinu?