Það er laugardagsmorgun, norðan 1-3 m/s, rigning í grennd, hiti + 11°C, raki 87%, loftþrýstingur 996.9 m/b. Við hóuðum lambám burt af nærliggjandi akri. Árla. Þær sækja þangað stíft og horfa áleitnum augum á laufið á víði og ösp innan við girðingar. Annars er afar kyrrt yfir sveitinni. Bændur fara sér hægt og bíða eftir þurrki.
Á rigningarsumrum hér áður fyrr horfðu menn til daga sem gáfu von um breytt veður. Hundadagar voru þeirra á meðal. Í ár enda þeir 23. ágúst með nýju tungli. Ef vonir um þurrk rættust ekki þá var næst horft til höfuðdags. Hann er 29. ágúst. En nú til dags eru flestir bændur svo dásamlega vélvæddir að margir ljúka heyskap á viku til tíu dögum. Fyrir fimmtíu árum stóðu menn á útengi með orf og ljá fram að réttum.
Sumardvöl okkar Ástu hér í Litlatré fer senn að ljúka. Höfum við notið lífsins hér í 30 daga samfleytt. Dvölin hefur einkennst af smíði sólpalla en þeir hafa nú stækkað um helming. Sóttum efnið í þá út á Skaga, í BYKO, og fluttum heim á aftaníkerru sem okkur áskotnaðist. Það var talsvert spennandi flutningur með allt að sex metra langt timbur. Ásta var dálítið kvíðin í fyrstu ferðinni. Tók svo gleði sína aftur.
Maríuerlurnar, sem búa í sama húsi og við, og við héldum að hefðu yfirgefið okkur hafa nú snúið til baka með stálpaða unga sem þær komu á legg uppi undir þakskegginu. Nú koma ungarnir svo til daglega og hlaupa um pallana, þrír saman, og grípa flugur af einstakri snilld. Eldsnöggir og kvikir. Annars eru lóur og gaukar tryggustu nágrannar okkar.
Gaukurinn er bráðfyndinn. Stundum slengir hann sér niður í þriggja til fimm metra fjarlægð frá húsinu og jaggar. Þá hef ég stundum jaggað á móti og hann svarað og við báðir hlegið. Lóan hefur aftur á móti þennan harmrænutón og sendir viðvörun til hnoðrana sinna þegar „svartstakkarnir“, hrafnarnir sem búa í Sámsstaðgili, koma og skanna móana til að leita að æti. Það minnir stundum á hamaganginn í Líbanon.
Þeir eru fimm. Foreldrar og þrír ungar. Svartir og gljáandi koma þeir ofan úr gilinu þar sem laupurinn er og fljúga lágt. Stundum velta þeir sér í loftinu og erta hver annan. Minna og á herþotur, allt nema hraðinn. Skanna móana. Mófuglarnir þagna. Allt verður hljótt. Við Ásta höldum niðri í okkur andanum. Allt í einu skellir einn hrafninn sér niður og hremmir. Hinir skella sér niður hjá honum og þeir berjast um bráðina. Við Ásta upplifum reiði og gremju og krossbölvum í huganum.
Þrátt fyrir orð postulans: „Blessið en bölvið ekki.“
Stilkar og bakkaplöntur hafa tekið vel við sér og síðustu daga þykist maður sjá gróðurinn vaxa. Og fullyrðir það. Laufið á öspinni verður svo ljómandi silkimjúkt og fallegt þegar vindurinn leikur um það. Bakhliðin. Og maður horfir tímunum saman á mýktina. Laufið á öspinni. Eitt sinn, fyrir margt löngu, gaf ég út fáein tölublöð af einblöðungi sem bar heitið Laufið á öspinni. Hrærður af yndisleika laufsins.
Á milli höfum við lesið bækur. Sumar bækur eru svo miklir vinir. Aðrar einkennast af orðagnótt. Tilgangslausu hismi. Ég var að ljúka þýddri skáldsögu sem telur yfir fimm hundruð síður. Hún hefði verið góð á þrjú hundruð síðum. Það má svo ekki gleyma elskulegum gestum sem litu við hjá okkur. Og margt bar á góma. Sei, sei, já. En látum nægja að sinni.