Átti eftir að koma frá mér fáeinum lokaorðum um viku bókarinnar og framtak Félags íslenskra bókaútgefenda. Er ekki sáttur við hugmyndina um þúsundkallinn sem sendur var á heimilin í ár. Fannst og það að sýna í fréttum bankastjóra Glitnis og Þorgerði Katrínu nýta sér ávísunina verka fremur fráhrindandi á mig. Hégómlegt.
Hefði fremur kosið að sjá einstæðar mæður úr Breiðholtinu gera tilraun til að eignast bók. Þó ekki væri nema handa börnunum sínum. En þær hefðu vafalítið orðið að nota aurana sem krafist var að bætt yrði við ávísunina, upp í þrjú þúsund krónur, til að kaupa haframjöl. En svona eru allir hlutir að verða nú til dags.
Í fyrra var gjöf Félags íslenskra bókaútgefenda glæsileg. Þá gátu einnig fátækir farið í bókabúð og þegið Árbók bókmenntanna að gjöf. Það var rausnarlegt. Ég nýtti mér þetta og las bókina alla. Síðan höfum við hjónakornin tekið bókina upp á hverjum morgni, við Horngluggann, og lesið í henni um og eftir höfunda sem áttu þann fæðingardag.
Vinna Njarðar P. Njarðvík við að safna saman þessum fróðleik sem í bókinni er og velja sýnishorn af efni höfundanna er aðdáunarvert og skemmtilegt og bókmenntalegt. Læt ég eftir mér að þakka innilega fyrir Árbók bókmenntanna 2005.
Í gærmorgun lásum við þetta:
„Sumir eru fæddir meðalmenn, sumir ávinna sér meðalmennsku,
og svo eru þeir sem er þröngvað til meðalmennsku.“
Joseph Heller