Teljarinn á heimasíðunni gafst upp í vikunni. Það olli mér ýmsum verkjum. Til dæmis millirifjagigt og snert af einmanakennd. Brynjólfur, sem annast hefur um tækniatriði síðunnar fyrir mig, gerir afar lítið úr svona talningum á flettingum á heimasíðum. Ég geri ekki lítið úr þeim. Þær eru mér félagsskapur. Eiginlega nærist ég á því að sjá að fólk heimsækir síðuna og les léttvægt hjalið á henni. Brynjólfur setti upp nýjan teljara í gær og talning á öllum pistlum byrjar á núlli. Gamlir og nýir.
Einmanakenndin er erfiðari viðfangs en millirifjagigtin sem læknast með tveim töflum af Ibúfeni. Hitt hefur með sálina að gera. Ég hef reynt að fanga hana og setja hana í hólk, eins og gert var við drauga í gamla daga. Byggði ég það á hugmyndinni um að einmanaleikinn færi með sálinni í hólkinn. En það var ekki svo einfalt. Mér gekk ekki neitt að fanga sálina. Veit eiginlega ekki alveg fyrir víst hvar í mér hún er. Þetta er ekki mjög einfalt.
Þegar Ásta var farin í vinnu í morgun fór ég fram á bað og rakaði af mér skeggið. Það er gott að gera eitthvað róttækt þegar hnútur leggst í geðið. Eða með öðrum orðum, þegar geðið fer í hnút. Fór svo og kveikti á tölvunni. Hún er góður félagsskapur. Allt í einu rakst ég á gest á heimasíðunni sem hefur verið svo elskulegur að skrifa fáeinar fallegar athugasemdir við nokkra pistla. Það var mjög þægilegt að sjá og ég heimti gleði mína að nýju.
Þessi pistill er eiginlega tileinkaður þessum ágæta gesti sem hefur hlaupið London maraþon, hlotið grænt belti í karate, lesið Karitas og væntanlega eldað Pílarkássu. Og ég þakka fyrir heimsóknirnar á síðuna og orðin sem þar voru sett. Læt hvorttveggja gleðja mig. Sendi einnig bestu afmæliskveðjur.
Mér aftur á móti brá dálítið þegar ég leit í spegil fyrir stundu, til að greiða mér og mætti þar skegglausum náunga sem ég kannaðist ekkert við.!!!