Við hlustuðum á útvarpsmessu á páskadagsmorgni. Vorum í sveitinni okkar. Þar var alhvít jörð á upprisudaginn og snjómugga í loftinu. Orð ræðumannsins vöktu til umhugsunar. Skilningur hans og viðhorf undirstrikuðu hvað greind mín og skilningur ná skammt. En það hefur raunar bagað mig alla tíð og ég kveinkað mér þegar umræða minnir á það. Biskupinn prédikaði og sagði meðal annars:
„Á páskadagsmorgni var að sögn farið með gamanmál í kirkjunni og hlegið dátt, hlegið og kæst yfir því sem er ótrúlegast alls: Að hinn krossfesti Kristur er upprisinn, lífið hefur sigrað dauðann. Hann dó vegna vorra synda, hann dó fyrir þig, til fyrirgefningar syndanna. Guð sneri illu til góðs, dauða til lífs. Já, Guð lék á djöfulinn, felldi hann á eigin bragði. Það er hið hlægilegasta af öllu hlægilegu, ótrúlegasta af öllu ótrúlegu, gleðilegast allra gleðiefna. Að vissu leyti eru páskarnir því alltaf og ævinlega brandari Guðs sem hlær að hiki og efa og hálfvelgju kirkju sem fremur vill trúa á föstudaginn langa en páska, sem fremur vill sleikja sár uppgjafar og vonleysis en syngja sigursöngva og þakkargjörðar.“
Persónuleg reynsla mín í trúmálum nær ekki yfir þá fullyrðingu að páskar séu brandari Guðs. Þó átta ég mig á því að reynsla manna í trúmálum er fjölbreytt og margvísleg. Sem og reynsla þeirra af lífinu, menntun og fræðimennsku. Fjölbreytt og margvísleg. Eins og litirnir í regnboganum.
Í ræðunni heyrðist mér fram koma viðhorf til trúar sem flokki mig sem aðhlátursefni Guðs, af því að ég trúi á föstudaginn langa. En vissulega trúi ég ekki á föstudaginn þann. Það eru atburðir þess dags sem ég trúi á. Krossfesting Krists. Ekki framferði misvitra valdamanna sem líflétu hann, heldur þáttur hans sjálfs í sigurverkinu. Og kjarna Orðsins. Hugsun Guðs og hugtökin sem að baki stóðu.
Hún er mér jafnan hugleikin „kona ein í bænum“ sem ritningin greinir frá. Þar segir frá því að hún nam staðar staðar að baki frelsaranum grátandi, kraup og „tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum.“
Í atferli hennar sé ég ástríðufullt þakklæti og elsku af dýpstu rótum hugar og hjarta. Atferli sem bendir til þess að hún hafi fengið að sjá lengra og þegið meira en fólkið sem stóð umhverfis. Og ég ímynda mér að á degi upprisunnar hafi hún staðið álengdar og fylgst með atburðum, tárvotum augum, þögul og full af lotningu. Hrærð yfir því að vera upprisin með meistara sínum.
Einnig er lærdómsríkt að fletta upp á Prédikaranum 7:4.