Undirstraumar

Í gegnum tíðina höfum við Ásta gert nokkuð með dagana fyrir og um páska. Til dæmis þá lesum við, við Horngluggann, kaflana í ritningunum sem fjalla um efnið. Leyfum við textunum að hafa nokkur áhrif og undir þeim tókum við fram menóruna í fyrradag og settum hana í öndvegi. Og eina ferðina enn fór ég á stúfana til leita að matzo mjöli til að baka ósýrt, en ósýrt er eitt af lykilatriðunum í helgihaldinu um brottförina miklu. Og síðustu kvöldmáltíð Krists.

Þetta var í þriðja sinn sem ég fór og spurðist fyrir um matzo mjöl, á föstu. Hringdi og fór í ótal staði, en þeim hefur fjölgað verulega, þeim sem kenna sig við fjölbreytt úrval af allskyns fæðuefnum. En það fór eins og í fyrri skiptin. „Matzo, aldrei heyrt það, hvað er gert við það?“ Þannig voru viðbrögðin á flestum stöðunum. Fólk setti upp undrunarsvip, aðrir hæðnissvip og ég er ekki frá því að einn hafi spurt með vandlætingartóni hvort ég væri einhverskonar gyðingur, eða hvað?

Auðvitað er ég ekki gyðingur en það fer ekki hjá því að undirstraumar ritninganna eiga hlutdeild í mér og hrífa mig með við lestur áhrifamestu frásagnanna. Og þar m.a. lesum við að ,,Kristur tók brauð og braut það […],“ matzo kökur, og deildi með lærisveinum sínum á þessari makalausu samverustund þeirra áður en hann fór til Getsemanegarðsins. Sem er auðvitað atburður sem allir þekkja og umgangast, hver á sinn hátt.

Lét mig samt hafa það að gera tilraunina. Setti Stabat Mater eftir Pergolesi á fóninn og hófst handa. Árangurinn sést á myndinni. Smellið á myndina.

2 svör við “Undirstraumar”

  1. Upprunalega matzo uppskriftin samanstendur aðeins af
    matzo mjöli og vatni. Nú til dags fyrirfinnast hundruð
    matzo uppskrifta. Sumar hafa bæði egg og sykur.
    Veit ekki hvernig Móse litist á það????

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.