Það er eðlilegt að fólk velti því fyrir sér hvort páskar hafi eitthvert gildi umfram það að vera frídagar. Langflestir umgangast þá sem tækifæri til að hvílast frá vinnu og daga sem hægt er að tileinka áhugamálum og leikjum ef aðstæður leyfa. En páskar hafa að sjálfsögðu meira gildi en það. Þeir eru helgir dagar, fráteknir dagar, sem stofnað var til fyrir sál og anda og hafa að sjálfsögðu mikið gildi fyrir þá sem íhuga andleg málefni.
Í fyrstu yfirferð má segja að páskar séu tileinkaðir frelsi og öryggi. Við lesum um öryggi og vernd sem þeir nutu sem trúðu og sýndu það í verki á tímum plágna, með því að bera lambsblóð á dyrastafi húsa sinna. En ritningarnar segja einmitt frá því að Guð hafi horft til táknmyndar blóðsins. Og í skuggsjánni greinum við þá merkingu að í blóðinu er líf, en lífið er auðvitað dýrmætasta eignin.
Um frelsun lesum við í frásögunni af því þegar „..hér um bil sex hundruð þúsund fótgangandi manna auk barna,“ á dögum Móse, tóku sig upp og yfirgáfu Egyptaland þar sem þeir höfðu búið við áþján og nauð í fjögurhundruð og þrjátíu ár. Þessi sögulega brottför var ávöxtur af trúariðkun. Settar höfðu verið upp reglur um páskahald, reglur sem fólkið gekkst undir og „Þá féll lýðurinn fram og tilbað.“ Með trúariðkun og bæn óx þjóðinni kjarkur og þor til að takast á við þau skilyrði sem höfðu kúgað hana kynslóð eftir kynslóð, og reif sig lausa.
Hugtökin frelsi eða frelsun hafa, án vafa, mismunandi gildi í huga fólks. Reikna má með því að hjá venjulegu nútímafólki sé hugtakið fremur lítilvægt. Þó má telja víst að allir þeir sem við einhverskonar áþján eða undirokun búa, finni innra með sér fyrir þrá til að losna út úr þeim aðstæðum. Af hvaða rótum sem þær eru. Og það er einmitt til þeirra sem tákn páskanna vísa og kalla hvetjandi orðum. Enn þann dag í dag.