Við lesum á þessum dögum þar sem segir að páskar nálguðust. Í guðspjöllunum fjallar textinn um Jesúm Krist á þann hátt að lesandi fær á tilfinninguna að ekkert annað hafi verið á seyði í veröldinni um þær mundir. Það er eðlilegt. Verið er að leiða frásögu, væntingar og spádóma hinna vitrustu manna, speki þeirra og visku margra alda fram og fókusa á einn punkt. Einn hinna mikilvægustu atburða í sögu mannsandans.
Við lesum einnig um viðbrögð ríkjandi trúarkerfis þess tíma sem verður bert að því að óttast um eigin stöðu, vald og virðingu, og leggur því til atlögu við Krist og kenningu hans sem þeim finnst ógna sér. Verða þeir berir að því að fyllast afbrýði og hatri vegna þeirrar athygli sem Kristur fær og árangurs hans og um leið vanmætti gagnvart rökum hans sem öll voru byggð á ritningunum og þeir áttu því engin heiðarleg andsvör við. „Því sögðu farísear sín á milli: „Þér sjáið, að þér ráðið ekki við neitt. Allur heimurinn eltir hann.““
En Jesús hélt ótrauður í áttina að páskahátíðinni þótt hann vissi hvaða örlög biðu hans þar. Hann hafði lagt sinn eigin vilja til hliðar og gengist undir vilja Guðs, föðurins í himninum, Orðs elsku, miskunnsemi og náðar sem um áraraðir hafði verið hindrað og sett í farveg ytri siða og forms, fórna og skrúða. Farveg sem var ófær um að rétta hlut þeirra sem lakast voru settir. Kerfi sem hafði hafnað andanum en sett reglur á stall.
Það var því vaxandi spenna í andrúmsloftinu fyrir þessa páskahátíð. Hið andlega vald hafði ákveðið að lífláta Jesúm og það vissi hann. Og við, nútíma lesendur ritninganna, fylgjumst með meistaranum ganga í áttina að krossinum, hógværum og lítillátum. Og lútum höfði.