Hann gekk í veg fyrir mig um liðna helgi. Var fremur þungbúinn á svip. Það fékk mig til að hika við. Sjaldnast vissi ég hverju ég mátti eiga von á þegar hann birtist svona skyndilega og tók að horfa á mig. Þungbrýnn. Eins og hann ætti við mig erindi. Ósjálfrátt fór ég að leita í huganum hvort ég hefði gert honum eitthvað. Eða skuldaði honum. Eða hefði ekki staðið við eitthvað sem ég hefði lofað.
Svo benti hann mér að halda áfram. Það gerði hann með lítilli hreyfingu annarrar handar. Ég gekk af stað. Og hann við hliðina á mér. Hann sagði aldrei neitt. Það er slæmt. Bókstaflega erfitt. En það hafði svo oft reynst mér illa að ávarpa hann að fyrra bragði. Þess vegna kaus ég að segja ekki neitt. Nú eru liðnir fjórir dagar. Hann fylgir mér stöðugt. Hefir enn ekki sagt orð.
Í morgun átti ég erindi í fáeinar búðir. Ók til Reykjavíkur. Hann sat í. Svo inni í verslun, þegar ég var að skoða það sem mig vantaði, þá hristi hann höfuðið. Eins og þetta væru ekki góð kaup. Ég lagði frá mér hlutina. Hann sagði ekkert. Ég kom svo heim án þess að hafa keypt nokkuð. Nú er ég orðinn jafn þungbúinn á svipinn og hann. Og við horfum báðir á tölvuskjáinn. Ég óttast að hann eyði því sem ég er að skrifa. Teygi hendi yfir öxlina á mér og styðji á delete.
Hann lætur samt aldrei sjá sig þegar Ásta er nálægt. Þá hverfur hann fljótlega. Ásta á það til, þegar hún kemur heim úr vinnu og heilsar mér og horfir á andlitið á mér, að spyrja hvort hann hafi litið við í dag. Ég neita því alltaf.
– Ertu nokkuð að skrökva, spyr hún þá.
– Ég að skrökva, nei, ég er eiginlega alveg hættur að skrökva.
Þá glotti helvítið um leið og hann lét sig hverfa.
Það lá að…:-)