Við höldum áfram með upprifjunina frá Parísarferðinni. Við lestur hinnar sígildu skáldsögu meistara Victors Hugo, Maríukirkjan, á yngri árum má segja að dulin löngun til að koma á slóðir sögunnar hafi búið um sig í huga lesendans og lifað þar allar götur síðan. Sama má segja um Vesalingana eftir sama höfund. Þetta eru stórkostlegar, sígildar bækur sem allir ættu að lesa. Þær vekja samkennd með þolendum óréttlætis og söguslóðir þeirra verða hluti af lífi manns.
Fólksstraumurinn bar okkur niður að Signu og áfram út í eyju, umhverfis Notre Dame, Hotel de Ville og til baka um Pont St. Michel. Við störðum lengi á skólabókaútimarkað á Place St. Michel. Geigvænlegur aragrúi af fólki streymdi um breiðar gangstéttarnar og ungu fólki að kaupa skólabækur á útimarkaði. Það tók verðmiða úti, fór síðan inn í búðina og borgaði, kom út aftur og fékk bækurnar afhentar. Undrandi á öllu þessu sem fyrir augun bar, svo hratt og svo mikið, orsakaði alltof sein viðbrögð hjá mér þegar meistara Erró brá fyrir í þvögunni ásamt vinum sínum, þannig að þegar ég loks kallaði: „Erró, Erró, monsieur Erró,“ þá var hann horfinn í aragrúann. „Monsieur Erró, eins og það hefði verið gaman.“
Við þurftu ekki að standa í biðröð við Maríukirkjuna, Cathédral Notre-Dame de París, þótt þar væru um það bil fimmtíu bílfarmar af ferðamönnum og leiðsögumaður með hverjum hópi. Og það var undarleg tilfinning að koma inn í þetta sögufræga guðshús. Stærð þess er næstum ólýsanleg, tekur níu þúsund manns. Salir, skútar, kórar, súlur og kimar, hæðir í bogum og sveigjum og rósagluggar með áttatíu myndum úr Gamla testamentinu. Dimm horn og skot og risastór málverk hátt upp um veggi og unnið að viðgerð á sumum þeirra, og logandi kertafjöldi og krjúpandi fólk á bæn. Það voru tötralegar eldri konur, smávaxnar, svartklæddar með skýluklút yfir hárið og ferðamannakraðak allt um kring. Háværir Ameríkanar með dýrar myndavélar um sig alla og tyggjandi tyggigúmmí, Spánverjar í hópum, Ítalir í hópum og Japanar í hópum hrópandi sín hvellu orð í gegnum nefið.
Þegar við gengum út með norðurhliðinni í átt til dyra kom myndin af Quasimodo úr bók Victors Hugo upp í hugann, og ósjálfrátt skimaði ég um kirkjuna og færði mig inn eftir henni aftur og leitaði að stöðum sem ég gæti kannast við úr sögunni. Ásta fylgdi mér eftir og ég sagði henni frá tilfinningunni og við leituðum bæði. Allt í einu sá ég það fyrir mér, ljóslifandi og magnþrungið:
„…Quasimodo sleit hár sitt með báðum höndum og stappaði í gólfið af undrun og bræði, þegar hann sá, að klefinn var auður, að tartarastúlkan var þar ekki, að hún hafði verið numinn á brott á meðan hann barðist henni til varnar. Þvínæst hljóp hann um alla kirkjuna til að leita að henni, hann orgaði inn í hvern krók og kima og stráði hári sínu um gólfið[…] Hann leitaði um alla kirkjuna þvera og endilanga, tuttugu sinnum, hundrað sinnum, efst og neðst. Hann fór upp, hann fór ofan, hann hljóp og kallaði, hann æpti og orgaði, hann leitaði dyrum og dyngjum, gægðist inn í hvert skot og lýsti upp allar hvelfingarnar, óður og ær eins og villdýr sem hefir misst maka sinn […] allt í einu fleygði hann kyndlinum frá sér í bræði og tróð hann undir fótum, og án þess að heyrðist til hans stuna né orð, hljóp hann að veggnum, lamdi höfðinu við hann eins og óður maður […] Quasimodo horfði á tatarastúlkuna, sem hékk í gálganum í síðustu dauðateyjunum […] Esmeralda, allt sem ég elskaði.“
Eftir þessa upprifjun gengum við út úr kirkjunni hrærð og settumst á bekk á torginu fyrir framan hana. Eftir nokkra þögn sagði Ásta lágum, kyrrum rómi: „Pabbi þó.“
Eitt andsvar við „Þrír dagar í París II“