„Svar er einskisvirði nema maður hafi fengið það með því að hugsa sjálfur.“ Þannig svaraði Myles Burnyeat, einn fremsti Platonsérfræðingur í hinum enskumælandi heimi, útvarps- og sjónvarpsmanninum Bryan Magee, þegar sá síðarnefndi ræddi við hann.“
„Vilji maður vera fylgismaður Sókratesar þýðir það að maður verður að hugsa sjálfstætt, og ef nauðsyn krefur, að víkja frá hugmyndum og málefnasviðum sem Sókrates hafði markað sérstaklega.
Þessar eldri samræður, þar sem Sókrates er að fást við siðferðilegar spurningar, hafa tiltekið mynstur eða tiltekna byggingu sem einkennir þær. Sókrates er að tala við einhvern viðmælanda sem gengur að því vísu að hann viti hvað eitthvert mjög algengt orð merkir, eins og tildæmis „vinátta“ eða „hugrekki“ eða guðrækni“; og með því einfaldlega að yfirheyra manninn, spyrja hann í þaula, láta hann gangast undir það sem hefur hlotið nafnið „sókratísk yfirheyrsla“, sýnir Sókrates honum, og það sem skiptir enn meira máli, áhorfendunum að þeir hafi ekki þann skýra skilning á hugtakinu sem þeir töldu sig hafa.“ (Miklir heimspekingar, Bryan Magee)
Það er auðvitað stórt upp í sig tekið fyrir almúgamann að flagga svo stórum nöfnum mannkynssögunnar í pistli sem hugsaður er fyrir aðra almúgamenn. Hugrekkið (eða einfeldnin) sem knýr til þess er þó af eðli þeirrar trúar á fólk að allir geti aukið við sig. Allir geti losað sig úr fjötrum hversdagslegra hugsana og lyft vængjunum ofurlítið, svo að byrinn sem svífur yfir vötnunum, og enginn veit hvaðan kemur né hvert fer, nái að leika um þá.
Þess vegna ættu allir að staldra við öðru hvoru og velta fyrir sér þeim viðhorfum sem líf þeirra og vani hafa gróðursett í hugsun þeirra. Gera tilraunir með að hugsa sjálfstætt. Og spyrja spurninga. Spyrja sjálfa sig, til dæmis, hvað það sé að hugsa sjálfstætt og upplifa þar með þann góðilm sem slíkri spurningu fylgir.