Tvö mál hafa vakið athygli framar öðrum þessa vikuna. Í fyrsta lagi er um að ræða blaðamennsku DV. Ekki er nema eðlilegt að þjóðin kveini yfir aðferðum blaðsins. Aðferðum sem eiga rót sína í fégræðgi. Og ekki hvað síst þegar hún er ættuð frá mönnum sem eiga fúlgur af peningum. Rökfærslur ritstjóranna til að réttlæta aðferðir sínar eru bull. Áhugi þeirra á því sem þeir kalla sannleika er ósannur. Þeir eyðileggja meira en þeir þykjast lagfæra. Og vita það. En dagblöð þurfa að seljast.
Draga má þá ályktun að drifkraftur miskunnarleysisins eigi upptök sín í athyglisbresti aðalritstjórans. Hann hefur lengst af sýnt áhuga á snúa þversum, gera hasar og þyrla ryki hátt í loft upp. Oftar en ekki á kostnað fólks sem enga möguleika hafði til að bera hönd fyrir höfuð sér. Og sparkað í það liggjandi. Mig hefur alltaf grunað að maðurinn sé veikur.
Það er einnig fróðlegt að heyra þjóðina kveina yfir blaðamennskunni. Þjóðina sem kaupir DV og í rauninni heldur ósómanum gangandi með því. Það eru ekki miklar líkur á að blaðinu væri haldið úti ef ekki fengist inn fyrir launum ritstjóranna. Og maður veltir því fyrir sér hvað það sé í sálarlífi kaupenda sem fær þá til kaupa og lesa DV, dag eftir dag, og svelgja í sig afbrigðilega fréttamennsku þess.
Hitt málið sem vakti athygli í þessari viku er ræða forsetans á fundi hjá Sagnfræðingafélagi Íslands. Í ræðu þessari kom í ljós að forsetinn er kominn út úr skápnum. Hann er hættur að fela tilhneigingar sínar. Nú kemur hann fram af heilum hug og reynir allt hvað hann getur til að koma sér vel við stórefnamenn og verða fullgildur í hópi þeirra.
Það er mikil breyting frá þeim tímum þegar hann lék vin „litla mannsins“ í þjóðfélaginu. Nú eru fátækir væntanlega ólæknandi stærð í augum hans, stærð sem ekki verður læknuð nema með því að auðnum verði skipt á annan veg en nú er gert. En það vilja þeir ríku auðvitað ekki heyra og virðist forsetinn nú taka sér stöðu með þeim hópi. Þeir sem hafa hlustað á manninn tala, áratugum saman, og aðra sem gáfu sig út fyrir að vera vinir fiskverkunarkonunnar og hennar líka hafa því miður, of margir, orðið berir að því að hafa talað þvert um hug sinn.