Aftur og aftur upplifi ég það hvað fólk les ritningarnar á mismunandi vegu. Þetta varð mér ljóst strax á fyrstu árum mínum í samfélagi við orð Guðs en það samfélag hefir nú varað í liðlega fjörutíu ár. Það var eins og orðin kæmu til mín á annan veg en margra annarra eða skilningur minn tæki við þeim á annan veg en þeirra. Manna sem þó höfðu helgað sig þeim og létu margir hverjir til sín taka opinberlega á því sviði.
Ég er ekki að segja að það fari neitt sérstakt orð af skilningi mínum í þessum málum. Miklu fremur margefaðist ég um hann og varð að liggja tímunum saman yfir skýringum og viðhorfum, með bæn og kveinstöfum, til að sætta sjálfan mig við það sem ég þóttist skilja að Guð í himninum vildi fá fram. Og oftar en ekki var það gjörólíkt því sem mér hafði sýnst í fyrstu. Auðvitað voru fyrstu skoðanir mínar undir áhrifum frá því ágæta fólki sem ég hlustaði mest á.
En svo ég taki nú eitt dæmi um það sem veldur mér undrun og spurn á þessum vikum, dæmi sem tengist orðum frelsarans frá Nasaret, en skammt undan er mikil ljósahátíð sem haldin er til að minnast fæðingar hans. Þetta dæmi sem mér er í huga varðar bænina. En eins og allir vita þá er bænin aðal lífæð trúaðra manna og alls ekki sama hvernig hún er framkvæmd. Það er að minnsta kosti mín reynsla.
Ritningin tekur þetta fyrir og geymir orð Krists um þessi mál. Á einum stað segir frá því þar sem hann er að tala við fjölda manna og leiðbeina fólki um eitt og annað sem gert gæti líf þess dýpra og göfugra. Hann segir: „Og þegar þér biðjist fyrir, þá verið ekki eins og hræsnararnir. Þeir vilja helst standa og biðjast fyrir í samkundum og á gatnamótum, til þess að menn sjái þá. Sannlega segi ég yður, þeir hafa tekið út laun sín.“
Og hann heldur áfram og segir: „En þegar þú biðst fyrir, skaltu ganga inn í herbergi þitt, loka dyrunum og biðja föður þinn, sem er í leynum. Faðir þinn sem sér í leynum, mun umbuna þér.“ Þetta segir ritningin og ekki get ég skilið það á annan veg en þann að þeir sem biðja af einlægni eigi að forðast að biðjast fyrir á gatnamótum og til dæmis í dagblöðum því þá megi reikna með því að þeir leggi meira upp úr því að verða séðir af mönnum en Guði.