Það var svo fátt vitað um orsök þessara hluta á árum áður. Lærdómsmenn, spekingar og læknar, deildu um aðferðir og stjórnvöld vildu helst hafa menn eins og þá um borð í skipum sem höfðu það eina takmark að koma aldrei að landi. Svo að þeir og aðrir borgarar þyrftu ekki að sjá þá. Og gætu gleymt þeim. Þessi skip komu því bara að landi þegar sækja þurfti kost. Hann var svo auðvitað eins rýr og fátæklegur og hægt var.
Þessi sami vandi er fyrir hendi enn í dag. Stjórnmálamenn setja upp einskonar útisetur en munurinn er sá að núna eru þau í húsum. Þau eru kölluð hæli og eru gjarnan staðsett úti á landi. Þá geta stjórnmálamenn fremur reynt að gleyma þeim sem þar eru. Og það kjósa flestir. Það er helst þegar gúrkutíð er hjá blaðamönnum að fundið er upp á því að segja frá hælunum, af því að ekkert annað er til að tala um. En sjaldnast er það af miklu viti og miðast ekki við að bæta hag þeirra.
Ég var búinn að vera á svona hæli í tæp fjörutíu ár. Þar var alltaf fullt. Ef einhver dó var strax komið með annan í staðinn. Við eyddum dögunum sitjandi á fletunum okkar og það dró af okkur með hverju ári sem leið. Reyndar höfðu menn komið sér upp tækni fyrir sálina. Sálartækni í formi ævintýris sem miðaði að því að halda lífinu í mönnum með því að viðhalda von um lausn í brjóstum þeirra.
Þannig var að einu sinni á ári, skömmu fyrir páska, kom kona nokkur, á vegum trúfélaga, og söng fyrir okkur þrjá sálma. Hún hafði undurfagra og hljómþýða rödd. Í fórum sínum hafði hún ofurlitla krús og pínulitla skál og kerti. Í krúsinni var svokallað heilagt vatn. Þegar konan hafði sungið síðasta sálminn setti hún skálina á lítið borð sem var við hlið hennar. Síðan kveikti hún á kerti og helti loks vatninu í skálina. Ætlunin var að hún dýfði þumalfingri í vatnið og snerti ennið á mönnunum með honum og færi með bænarorð.
Ævintýrið okkar byggðist á því að ef einhverjum tækist að gera skál úr lófum sínum og bregða undir vatnið þegar konan hellti áður en það kæmi í skálina, án þess að dropi færi niður, og drekka svo vatnið úr lófanum. Þá mundi hann læknast. Þessi saga varð til löngu áður en ég kom á staðinn. Menn trúðu henni eða öllu heldur tóku ekki þá áhættu að trúa henni ekki. Og þess vegna var alltaf talsverð eftirvænting í loftinu þegar tók að nálgast páska.
Það var svo eitt árið að það kom þarna ókunnur maður í heimsókn. Það var skömmu fyrir páska. Við vissum ekki deili á honum. Þetta var sama dag og konan kom til að syngja. Ókunni maðurinn fylgdist með öllu sem fram fór. Heimamenn tóku að undirbúa sig til að grípa vatnið. Ég sat kyrr. Þá spurði ókunni maðurinn mig hvort ég ætlaði ekki að reyna. Hvort ég vildi ekki komast burt. Ég sagði honum að ég væri svo bæklaður að ég kæmist ekki hjálparlaust, og aðrir hugsuðu bara um sjálfa sig, sem von væri.
Þá sagði hann að til væri leyndardómur, falinn í orðum, sem hann vildi segja mér frá. Og svo hóf hann að útskýra fyrir mér hluti sem ég hafði vissulega heyrt áður en aldrei skilið. Hann talaði mjög ljúflega. Loks stóð hann upp, rétti mér hönd og sagði: „Taktu í hönd mína. Prófaðu að standa upp.“ Ég tók í hönd hans og smámsaman komst ég á lappirnar. Það var ekkert auðvelt, en það gekk, og svo beygði hann sig eftir sænginni minni, rétti mér hana og sagði: „Komdu nú með mér, fylgdu mér eftir.“ Og hann leiddi mig út. Já. Út burt frá hælinu. Það var eins og Exódus. Veistu hvað það er?