Ég hef alltaf dáðst að mönnum sem tala frönsku. Það er að segja Íslendingum sem tala hana. Einu sinni vann maður hjá mér maður sem talaði frönsku. Ég komst að því þannig að hann var alltaf með kiljubók í vasanum og í hvert sinn sem færi gafst, svo sem í kaffitímum eða reykingahléum, tók hann bókina upp og las í henni. Þar sem ég hef alltaf þóst vera mikill áhugamaður um bækur, spurði ég hann hvað hann væri að lesa.
Hann rétti mér bókina. Ég man enn strauminn sem fór um mig þegar ég sá að hún var á frönsku. Og aðdáunina og lotninguna. Hendurnar á mér loguðu af einhverskonar geislun. Ég starði á bókina og velti henni fyrir mér, leit síðan á manninn og stamaði út úr mér: „Lestu frönsku?“ „Oui,“ sagði maðurinn. „Og talar þú frönsku?“ spurði ég enn, hálf stamandi. „Oui,“ sagði maðurinn. „Segðu eitthvað við mig á frönsku,“ sagði ég næst.
Þá byrjaði hann að tala. Ég reyndi að ráða í tóninn. Skildi ekki eitt einasta orð. Varð máttlaus í hnjáliðunum. Sagði: „Ekki alveg svona hratt,“ og þóttist með því geta fengið meiri áhrif. Hann talaði hægar. Þvílíkt og annað eins, að geta talað og lesið frönsku. Það hefði nú verið fróðlegt að vita hvað hann sagði, það gat auðvitað verið hvað sem er. Og það fóru að renna á mig tvær grímur. Við unnum við nýjan veg í Flóanum. Það eru 30 ár síðan.
Ég átti nokkrar bækur eftir frönsk stórmenni, svo sem Voltaire, Hugo, Zola, Rousseau og Schure nokkurn. Var gagntekinn ungur af Birtingi og Kúnigúnd í dásamlegri þýðingu Halldórs Laxness. Einnig Vesalingunum, frásögunni af hinum ólánssama, atvinnulausa, sjö barna föður, Jean Valjean, sem hlaut fimm ára fangelsisdóm fyrir að stela einum brauðhleif. Og konunum sem seldu hárið af höfði sínu og tennurnar úr munni sínum til að borga hyskinu sem gætti dótturinnar Kósettu. Og fulltrúa yfirvaldsins, skíthælnum Javert, sem allir fyrirlíta.
Þá má ekki gleyma Quasimodo og Esmeröldu, Nönu eða Émile. Æ, já, allt þetta ágæta fólk sem gerir líf manns svo miklu ágætara. Fólk sem nær til manns á stundum tára og þrenginga jafnt sem hinna betri stunda. Og ekki má gleyma þeim sem þýða bækurnar. Hvernig í ósköpunum færu svona litlir og einfaldir menn eins og ég og mínir líkar að, ef ekki nyti þýðenda, manna, karla og kvenna, sem kunna önnur tungumál og snúa bókum yfir á okkar ylhýra.
Þetta er svona dagur hjá mér í dag. Ég get ekki orða bundist. Er fullur af bókmenntalegri hamingju og gæti tekið undir með stúlkunni Uglu, þótt ég nú vonandi deyi ekki úr hamingjunni.