Augljóst er að umfjöllun Kastljóss Ríkissjónvarpsins um utangarðsfólk hefur skilað góðum árangri. Var fjallað um mál þess bæði af sanngirni og samúð og ekki fallið í þá gryfju að hreykja sér af umfjölluninni. Á þáttargerðarfólk Kastljóssins hrós skilið fyrir umfjöllun þessa sem og um málefni aldraðra. Það kom enn og aftur í ljós í þessum þáttum, að stjórnmálamenn sem tekið hafa að sér að annast um málefni þessara veikbyggðu einstaklinga sem utangarðs eru, standa sig einfaldlega ekki nógu vel.
Það er með nokkrum ólíkindum að heyra fyrstu viðbrögð stjórnmálamannanna við spurningum sjónvarpsfólks um málið. Þeir segja að alltaf sé verið að kanna þörfina, telja einstaklinga og skoða þarfir þeirra, ekkert sé hægt að gera fyrr en það liggur ljóst fyrir. Í þeim svörum felst samt það að ráð og nefndir komi saman, haldi fundi með kaffi og kökum og ræði vanda fólksins (eða stjórnendanna) skrifi fundargerðir og ákveði loks hvenær næsti fundur skuli haldinn. Basta.
Þá má og reikna með því að þeir sem sitji fundina telji sér trú um að málin séu í góðum farvegi. Að minnsta kosti á meðan fjölmiðlar taka málin ekki upp. En undanfarin ár hefur það sýnt sig, að alltaf þegar fjölmiðlar tóku mál utangarðsfólksins upp, þá voru teknar ákvarðanir um úrbætur strax og þeim hrint í framkvæmd. Samanber núna dagvistunina í Konukoti.
Svo furðulegt sem það má teljast, þá er því líkast að stjórnmálamönnum sem og æðstu starfsmönnum félagsþjónustuumsýslunnar sé mikið í mun að hafa fréttamennina góða, rétt eins og að meira máli skipti að losna við umræðu heldur en að hafa málefni skjólstæðingana í lagi. Má því ljóst vera að gervi- og sýndarmennska skipi óþarflega háan sess í of vaxinni yfirbyggingu, því miður.
Her áður fyrr til sveita var alltaf rétt fram hjálparhönd. Ég get ekki sagt að það sé eins í dag. Því miður.
Það er ótrúlegt hvað lítið hefur verið gert í þeim málum.
Eins og ég best veit þá er eigöngu eitt hús Gistiskílið fyrir þá sem eru á götuni. Þar þurfa menn að vera komnir út klukkan 10 á mornanna og vera komnir inn klukkan 10 á kvöldin. Það er boðið upp á morgunmat en engan kvöldmat. Að hafa ekki súpu og brauð á kvöldin. Kostar það svo mikið fyrir borgina.