Á undanförnum vikum hef ég nefnt þessar ágætu ljóðakonur sem gist hafa hús mitt og huga. Já og aðrar konur einnig sem hafa sýnt mér og bent á að viðhorf þeirra og hagmælska geta verið gersemar þó ekki sé látið jafn mikið með þær og ýmissa annarra. Þessara ágætu ljóðakvenna á meðal er Þuríður Guðmundsdóttir frá Sámsstöðum í Hvítársíðu.
Þuríður er fædd 1939. Hún gaf út sína fyrstu ljóðabók, Aðeins eitt blóm, 1969, þrítug að aldri. Síðan hafa komið út eftir hana sex ljóðabækur. Hlátur þinn skýjaður 1972, Á svölunum 1975, Og það var vor 1980, Það sagði mér haustið 1985, Orðin vaxa í kringum mig 1989 og Nóttin hlustar á mig 1994. Ég ætla mér ekki að leggja einhverskonar mat á ljóð hennar. Til þess hef ég enga hæfni né forsendur. Leyfi mér samt að birta tvö þeirra til að gefa smá sýnishorn og lýsi með því ánægju minni með skáldskap Þuríðar.
Titilljóð úr fyrstu bókinni:
Aðeins eitt blóm
Ég vil gefa þér
aðeins eitt blóm
svo að þú sjáir
hve fagurt það er.
Ég vil gefa þér
aðeins eitt tár
til þess þú finnir
hve tregi minn er djúpur.
Ég vil gefa þér
aðeins einn vin
svo að þú vitir
hve auðugur þú ert.
Úr bókinni Nóttin hlustar á mig:
Ævintýri sem endar vel
Það var einu sinni sorg
sem sveif á dálitlu skýi
og skýið talaði við sorgina
og sorgin við skýið
brátt fór að rigna
það rigndi og rigndi
lengi lengi
uns skýið leystist upp
Þá læddist að sorginni
svolítill geisli
og geislinn talaði við sorgina
og sorgin við geislann
og Guð bað sólin að skína
hún skein og skein
svo skært og lengi
að sorgin leystist upp