Það var heldur dimmt yfir landinu í morgun. Einnig við Horngluggann, hvar við Ásta ræddum málin eins og svo oft áður. Ljóðakonurnar Þuríður Guðmundsdóttir frá Sámsstöðum og Emily Dickinson eru fyrirferðarmiklar í huganum þessa daga, enda margar bóka þeirra uppi við, ásamt Dagnýju Kristjánsdóttur. Ég freistaðist til að nefna þær við Horngluggann. Yfir kaffinu. Fékk góðar undirtektir.
,,Ég var að lesa um Emily Dickinson í gær. Hún hefur verið merkileg kona. Hún er talin eitt af meiri ljóðskáldum Ameríku. Þó voru aðeins sjö af ljóðum hennar prentuð á meðan hún lifði. Það minnir á van Gogh. Bara ein mynda hans seldist á meðan hann lifði. Tilveran er skrítin. Listin fær furðulegar móttökur. Ætli margir hafi vit á list? Skyldu þeir sem borga mest fyrir list hafa nokkurt vit á henni? Og svo er alltaf spurning; hvað er list?
Emily (1830-1886), fæddist í Amherst, Massachusetts, þar sem hún lifði allt sitt líf og dó, í sama húsinu. Hún var dul og valdi að lifa einangruðu lífi. Hvítklædd. Ég bögglaðist við að snúa tveim erindum eftir hana í gærkvöldi. Nennir þú að hlusta?
Ég er engin! Hver ert þú?
Ert þú líka, engin?
Við erum eins – já, leynum því!
Þau flæma okkur burt þú veist.
Ömurlegt er að vera einhver!
Alþekktur, líkt og froskur.
Og segja nafn sitt daginn út
Í aðdáenda feni.
Svona lét ég móðan mása við Horngluggann í morgun. Og drakk kaffið mitt. Það var samt ekki eins gott og aðra morgna. Sem ekki er von. Ásta er nefnilega í Kaupmannahöfn ásamt systrum sínum.