Það er athyglisvert að fylgjast með því hvernig verjendur í Baugsmálinu svokallaða, nota hvert einasta tækifæri sem gefst til að verjast því að málið verði tekið til efnismeðferðar? Þeir virðast leggja allt sitt vit og þekkingu, klæki og refstækni, í að hindra framgang málsins. Það er það sem vekur undrun.
Ef skjólstæðingar þeirra eru eins saklausir og þeir fullyrða, þá sýnist fákænum að þeir ættu einmitt að keppa eftir því að málið verði tekið fyrir sem allra fyrst og afgreitt, svo að sannleikurinn komi í ljós. Manni dettur óneitanlega í hug að þeir kjósi að sannleikurinn komi ekki í ljós. Og ef þeir kjósa það þá sýnist manni að þeir séu ekki eins vissir um sakleysi skjólstæðinga sinna og þeir þó fullyrða. Svo getur auðvitað, í þessari skógarferð allri, eitthvað allt annað legið að baki.
Einhversstaðar getur leynst möguleiki á að tefja málið svo lengi að það fyrnist. Annað eins hefur gerst. Handvammir ákæruvaldsins, sem út af fyrir sig eru afar forvitnilegt fyrirbæri, benda og til þess að tiltölulega auðvelt sé að skáka því og má ekki miklu muna að takist að sýna fram á að málatilbúnaður sé ónýtur. Það bendir samt margt til þess, hvað sem öðru líður, að sakborningar vilji ekki að málið verði tekið fyrir og leitt til lykta. Og maður veltir fyrir sér af hverju það sé?