Það var komið haust. Gul og rauð laufblöð féllu af greinum trjánna, eitt og eitt, og liðu mjúklega til jarðar. Stöku spör stakk nefi sínu í laufið og leitaði ætis. Maður nálgaðist. Hann gekk hægum skrefum í átt að styttu af ljóðskáldi og settist á bekk. Spörinn gaf frá sér hvellt hljóð og flaug upp. Maðurinn lagði gamla snjáða skólatösku við hlið sér. Gróf hendur sínar djúpt í frakkavasana og horfði út eftir stígnum sem lá niður að lítilli tjörn. Hann var alvörugefinn á svip. Eftir alllanga stund hófst samtal:
„Þú ert kominn aftur.“
„Já.“
„Og situr hér eins og áður.“
„Það er víst.“
„Hvað veldur?“
„Veit það varla.“
„Varstu ekki búinn að ákveða að fara?“
„Ég fór.“
„En hvað?“
„Var ekki viss.“
„En þú sagðist vera búinn að ákveða þig.“
„Ég var búinn að því.“
„Hvað svo?“
„Sá ekki tilgang.“
„Tilgang?“
„Já, að fara bara til að fara.“
„Hvað þýðir það?“
„Það þarf líka stað til að fara á.“
„Er ekki nóg af þeim?“
„Ekki sem henta.“
„Og hvað ætlastu nú fyrir?“
„Ætli ég verði ekki hér.“
„Hér?“
„Já, hjá kallinum.“
„Hvaða kalli?“
Maðurinn svaraði ekki strax. Hann seildist ofan í gömlu skólatöskuna við hlið sér, tók upp bók, opnaði hana og strauk blíðlega yfir aðra síðuna. Síðan beygði hann sig eftir laufblaði og setti inn við kjölinn.