Birta hugans er köld
Hún batt enda á líf sitt með því að stinga höfðinu inn í gasofninn í eldhúsinu á meðan börn hennar sváfu á hæðinni fyrir ofan.. Kannski var verknaðurinn angistarfullt hróp á hjálp. Örvæntingaróp eins og svo margra. En hjálpin barst henni ekki. Hún lét lífið. Aðeins þrítug að aldri. Mikilhæf manneskja og veik. Sylvia Plath. Hún var fædd 27. október 1932.
Vilborg Davíðsdóttir hefur þýtt ljóð eftir hana; Máninn og ýviðurinn. Þar segir m.a;
„Þetta er birta hugans, köld eins og stjörnuskin.
Tré hugans eru svört. Skinið blátt.
….“
Á morgnum eins og þessum, kyrrum íslenskum haustmorgnum, þegar mögnuð orð úr djúpi sálar annarrar manneskju vitja manns og hrífa, og krefja til nánari kynna, – er svo sárt að upplifa fátækt sína og þekkingarleysi og komast hvergi í áttina. Sitja fastur. Andvarpa.
Í huganum myndast áskorun til bókmenntafólks, útgefenda og annarra, um að safna saman og gefa út á bókum öll ljóð þýdd á íslensku, í nafni höfunda þeirra. Þá gætum við, þessi fátæku í anda, flett upp á höfundunum og notið tjáningar þeirra og tilfinninga, þegar depurð mætir depurð eða glaðværð glaðværð. Þannig bækur vantar sárlega. Sárlega.