Stundum hef ég leitt hugann að því, tala af langri reynslu, hvað stjórnmálamönnum er gjarnt til, á tyllidögum, að bæta við ræður sínar málsgreinum um málaflokka sem þeir vita að höfðu verið útundan á liðnum tíma. Má nokkurn veginn ganga út frá því sem vísu að allir stjórnmálaflokkar geri slík mál að baráttumálum í aðdraganda kosninga. Með því höfða þeir til hópanna sem þeir vita að nutu ekki fulls réttlætis, í von um að hæna atkvæði þeirra að.
Það er auðvelt að vera höfðingi í orðum. Og reynir svo sem ekkert á. En það hefur reynst mörgu stórmenninu erfitt að vera höfðingi í verki, því að ekki eru allir höfðingjar í hjarta þótt þeir séu það í orði. Orð Geirs H. Haarde á landsfundi Sjálfstæðisflokksins vöktu athygli mína, en hann sagði m.a. „að hann ætlaði hinu opinbera stórt hlutverk við að gæta hagsmuna hinna veikari í þjóðfélaginu…“
Það liggur nokkuð ljóst fyrir að ekki hefur tekist nógu vel að gæta hagsmuna allra þeirra hópa sem kallast geta „hinir veikari“. Það hefur aftur á móti gengið mjög vel með „hina sterkari“ og miklu best með „hina sterkustu“, sem nú um stundir ganga lausir í haga.
Það þarf auðvitað bæði stjórnmálalegt og siðferðislegt viðhorf, sem og vilja, til að hafa áhuga á að jafna kjör hópanna nokkuð. Og ekki allir sem hafa þau. En af því að talað er um lýðræði sem meginreglu þjóðfélagsins, og Íslendingar gjarnan státa sig af að vera framarlega í, þá þurfa þeir að gæta þess að það er ekki nóg að tala um lýðræði, það verður líka að ganga í takt við það.
Nú á tímum sýnist manni að „hinir sterkustu“ vilji vera sjálfum sér lög, svo vitnað sé í Nietzsche, og hafna allsherjarreglum. Og því er ekki nema von að „venjulegur almúgamaður“ spyrji: Hvað verður þá um lýðræðið?
Það voru orð Geirs H. Haarde á landsfundi Sjálfstæðismanna, um „hina veikari í þjóðfélaginu“ sem vöktu áhuga minn. Veltandi þeim fyrir mér sé ég ekki betur en að nýs formanns flokksins bíði það vandasama verk að koma í veg fyrir að „hinir sterkustu“ gangi af lýðræðinu dauðu og geri sér „kálf steyptan úr gulli“ og bjóði almenningi að falla fram og tilbiðja hann til að fá afslátt við kassa.
Sjálfur gef ég mér það, af kynnum mínum af Geir H. Haarde, að hann sé líklegur til að standa við orð sín að tyllidögum loknum. Honum fylgja mínar bestu óskir.